Lambhúshettan fær nýtt líf
Prjónagleðin verður haldin á Blönduósi dagana 10.–12. júní 2022 og að venju er blásið til hönnunar- og prjónasamkeppni af því tilefni.
Í ár er verkefnið fólgið í því að hanna og prjóna lambúshettu á fullorðinn. Þema keppninnar er huldufólk samtímans og ber að hafa það í huga við hönnunina, sem á að vera handprjónuð úr íslenskri ull. Óskað er eftir því að sagan á bak við hugmynd og hönnun fylgi með þegar verkinu er skilað inn í keppnina. Dómnefnd velur 3 efstu sætin og verða úrslit kynnt á Prjónagleðinni 2022, þar sem verðlaun verða afhent.
Sameinar þá sem hafa áhuga fyrir prjónaskap
Svanhildur Pálsdóttir, viðburða- og markaðsstjóri Textílmiðstöðvar Íslands, segir að markmið Prjónagleðinnar sé að sameina þá sem áhuga hafa á prjónaskap, skapa því vettvang til að hittast og miðla prjónasögum, nýjum hugmyndum, aðferðum og gömlum hefðum, „en ekki síst til að viðhalda prjónagleðinni í öllum sínum fjölbreytileika“.
Svanhildur segi að unnið sé að því að setja saman áhugaverða og fjölbreytta dagskrá fyrir Prjónagleðina í byrjun næsta sumars, en að venju verði í boði fjölbreytt úrval námskeiða og fyrirlestra auk þess sem blásið sé til viðburða sem tengist prjónaskap og garni á einhvern hátt. Markaðstorg er ævinlega sett upp í tengslum við Prjónagleðina, en þar koma saman handlitarar, garnframleiðendur, prjónaverslanir, handverksfólk og hönnuðir og sýna og selja vörur sem tengjast prjónalífinu.
Lambhúshettur komnar í tísku
Svanhildur hlakkar til að sjá verkin sem munu berast í samkeppnina. „Lambhúshettan er eins og við þekkjum mjög gamalt fyrirbæri og slík höfuðföt hafa verið notuð hér á landi sem skjólflík svo áratugum ef ekki öldum skiptir. Núna eru þær allt í einu komnar aftur í tísku og því tilvalið fyrir hönnuði og prjónafólk að spreyta sig á því verkefni. Okkur finnst mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þessari samkeppni, ekki síst af því að þemað er ansi krefjandi.“
Styrktaraðilar prjónasamkeppninnar í ár eru Ístex, Tundra, VatnsnesYarn og Rúnalist sem gefa glæsileg verðlaun. Lambhúshetturnar sem taka þátt í keppninni verða til sýnis meðan á hátíðinni stendur.