Lán til endurbóta á flugvöllum á Grænlandi
Norræni fjárfestingabankinn og Kalaallit Airports International A/S á Grænlandi hafa skrifað undir samning um að bankinn láni 63,3 milljónir evra til tuttugu ára til framkvæmda við flugvöllinn.
Lánið, sem jafngildir tæpum níu milljörðum íslenskra króna, á að nota til uppbyggingar og endurbóta á alþjóðaflugvöllunum í Nuuk og Ilulissat og er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki á haustmánuðum 2023.
Meðal framkvæmda við flugvöllinn í Nuuk er ný 2.200 metra flugbraut og ný flugstöð með flugturni og aðstöðu fyrir farþega. Láninu er einnig ætla að fjármagna 2.200 metra flugbraut í Ilulissat og flugstöðvarbyggingu með flugturni og aðstöðu fyrir farþega.
Eftir að framkvæmdum lýkur verður flugvöllurinn í Nuuk helsti alþjóðaflugvöllurinn á Grænlandi.
Kalaallit Airports International A/S er 66,67% hluta í eigu grænlensku stjórnarinnar en danska ríkið á 33,33% hlut í fyrirtækinu.