Landbúnaðarklasi á Íslandi
Höfundur: smh
Á ráðstefnunni Þjóðarspegillinn 2015, sem haldinn var 30. október í Háskóla Íslands á vegum Félagsvísindastofnunar, fluttu þau Sigríður Hyldahl Björnsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson fróðlegt erindi um fyrirbærið landbúnaðarklasi.
Sigríður Hyldahl Björnsdóttir.
Erindið var unnið upp úr meistararitgerð Sigríðar í náminu Stjórnun og stefnumótun, við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands – en Runólfur var henni til aðstoðar í þeim skrifum. Sigríður segir að hún hafi í mörg ár starfað í matvælageiranum og þaðan sé áhuginn á málinu sprottinn. „Það má eiginlega segja að ég starfi sem kjötkaupmaður. Fjölskyldan hefur í um 70 ár rekið fyrirtækið Kjöthöllina sem afi minn, Christian Christensen, stofnaði árið 1944 og var fyrstu árin rekin á Klambratúni í Reykjavík.
Alla tíð höfum við lagt áherslu á að gera íslenskum landbúnaðarvörum hátt undir höfði og við höfum verið mjög ánægð með þær afurðir sem bændur framleiða hér á landi. Eftir að ég sat námskeiðið Samkeppnishæfni, sem er kennt í meistaranáminu við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í samstarfi við stofnun Michaels Porter við Harvard Business School, langaði mig að skoða landbúnaðinn í ljósi fræða um klasa og samkeppnishæfni. Á sama tíma og ég var að leggja línurnar fyrir verkefnið frétti ég af því að til stæði að stofna samstarfsvettvang um landbúnaðarklasa sem vakti áhuga minn enn frekar á þessu viðfangsefni,“ segir Sigríður. Landbúnaðarklasinn var svo formlega stofnaður þann 6. júní á síðasta ári, en lítil starfsemi hefur farið fram á þeim vettvangi frá stofnfundi.
Landfræðilega afmarkaðar þyrpingar fyrirtækja og stofnana
„Samkvæmt skilgreiningu Porters eru klasar „landfræðilega afmarkaðar þyrpingar fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana sem tengjast innbyrðis en eru einnig í samstarfi,“ útskýrir Sigríður. „Hugmyndin um klasa byggir meðal annars á því að fyrirtæki njóti ákveðins ávinnings af því að staðsetja sig nálægt öðrum fyrirtækjum í tengdri starfsemi. Nálægðin skapar möguleika á sérhæfðari birgjum og kunnáttu auk þess sem það á sér stað svonefnt þekkingarflakk á milli aðila. Klasinn myndast í kringum ákveðna kjarnastarfsemi og allir aðilar í klasanum tengjast með einum eða öðrum hætti. Klasinn samanstendur ekki eingöngu af fyrirtækjum, heldur einnig opinberum yfirvöldum, menntastofnunum, aðilum úr fjármálageiranum og öðrum sem að atvinnugreininni koma. Bæði samkeppni og samvinna einkennir samband milli aðila innan klasa.
Þegar talað er um klasaframtak er átt við samstarfsverkefni fyrirtækja, rannsókna- og menntastofnana, opinberra stofnana og annarra aðila með það að markmiði að auka vöxt og samkeppnishæfni tiltekins klasa. Verkefni klasaframtaks geta verið af ýmsum toga og þar má nefna tengslamyndun milli aðila innan klasans, að ýta undir stækkun klasans, hvatningu um samstarf milli aðila, stuðning við nýsköpun og vöruþróun og vinna að umbótum í viðskiptaumhverfinu.
Sem dæmi um erlent klasaframtak sem tengist matvælageiranum get ég nefnt Danish Food Cluster sem var stofnað árið 2013. Markmið þess framtaks er að hámarka möguleika innan greinarinnar til að vaxa á alþjóðlega vísu með því að skapa grundvöll fyrir nýsköpunarstarf og þekkingarmiðlun og laða að alþjóðleg fyrirtæki, sérfræðiþekkingu og fjárfesta,“ segir Sigríður.
Halda þarf áfram með landbúnaðarklasann íslenska
Sigríður telur að miklir möguleikar séu fyrir hendi varðandi Landbúnaðarklasann íslenska. „Miðað við þann áhuga sem ég varð vör við bæði á stofnfundi Landbúnaðarklasans og í samtali við viðmælendur mína um þær væntingar sem þeir gerðu til slíks samstarfsvettvangs eru möguleikarnir miklir á slíkum vettvangi. Að mínu mati þyrfti að halda áfram því starfi. Öflugur klasastjóri gegnir lykilhlutverki við að koma starfinu af stað, miðla upplýsingum til þeirra sem teljast hluti af klasanum og byggja upp tengslanet milli þessara aðila. Leggja þarf áherslu á að samstarfið skapi annan vettvang en hefðbundin samtök innan landbúnaðarins hafa gert hingað til. Klasaframtakið hefur það hlutverk að starfa fyrir og í samstarfi við fyrirtæki sem vilja taka þátt í klasaverkefnum í samvinnu við önnur fyrirtæki í klasanum. Mikilvæg verkefni eru meðal annars að: efla samstarf milli klasaaðila, setja framtakinu markmið og vinna að stefnumörkun, örva vöruþróun og nýsköpunarstarf innan klasans, skapa tengsl við opinberar stofnanir sem koma að reglusetningu í atvinnugreininni og síðast en ekki síst að vinna að því að skapa klasanum sterka ímynd.
Að sögn Sigríðar gæti Landbúnaðarklasinn haft margvísleg jákvæð áhrif á landbúnaðinn og tengdar greinar. „Miðað við þær erlendu rannsóknir sem gerðar hafa verið á klösum þá hafa komið í ljós augljós og jákvæð tengsl á milli klasaþróunar og meðal annars nýsköpunar, framleiðni, atvinnusköpunar, vaxtar lítilla og meðalstórra fyrirtækja og útflutnings svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún og bætir við að jákvæð áhrif innan klasans geti smitað út frá sér og haft jákvæð þjóðhagsleg áhrif. „Ef við lítum til dæmis á þau jákvæðu áhrif sem klasasamstarf getur haft á framleiðni. Ef klasastarfið er öflugt þá eiga fyrirtæki auðveldara aðgengi að sérhæfðu og reyndu starfsfólki. Nálægð við sérhæfða birgja getur haft jákvæð áhrif á viðskiptakostnað fyrirtækja. Staðbundin samkeppni getur virkað sem hvatning fyrir fyrirtæki til að standa sig vel og drífur metnaðarfull fyrirtæki áfram til að ná betri árangri en samkeppnisaðilar þess. Í þessu umhverfi verður til ákveðið hreyfiafl sem getur ýtt undir nýsköpun og þróun.“
Í rannsókninni í tengslum við ritgerðarsmíðina ræddi Sigríður við nokkra aðila innan klasans og þar kom fram að ýmsar væntingar hefðu verið gerðar til klasaframtaksins. „Viðmælendur voru allir sammála því að mjög brýnt væri að efla rannsóknar- og þróunarstarf og til lengri tíma litið væri það eitt brýnasta verkefnið til eflingar landbúnaðarins.
Viðmælendur sáu fyrir sér samstarf aðila innan klasans á fjölmörgum sviðum. Meðal annars var nefnd samvinna í almannatengslum og kynningarstarfi, í að byggja upp traust erlendra birgja á Íslandi, í samningum um flutninga og um stefnumótun í landbúnaðarmálum.
Allir viðmælendurnir sögðu að mikilvægt væri fyrir greinina að efla ásjónu og ímynd hennar og gera hana sýnilegri. Almennt töldu viðmælendurnir mikinn grundvöll vera fyrir starfsemi klasaframtaks og bundu vonir við að starfseminni myndi vaxa ásmegin.“
Í erindi Sigríðar kom fram að nú þegar megi greina ákveðnar klasamyndanir í landbúnaði – eða klasastarf. „Sem dæmi um það má nefna Ferðaþjónustu bænda, Beint frá býli og Matarkistu Skagafjarðar,“ segir hún. „Í meistaraverkefninu var landbúnaðurinn sem klasi kortlagður og svokallað klasakort teiknað upp. Klasakort er notað til að skilgreina kjarnastarfsemi klasans, greina aðkomu opinberra stofnana, meginþjónustuaðila, rannsókna- og menntastofnanir stuðningsaðila og fyrirtækja í tengdum klösum. Ég setti kortið upp eins og ég sá það fyrir mér en ég veit ekki til þess að það hafi verið teiknað upp áður. Við uppsetningu á kortinu hafði ég greiningar Porters til viðmiðunar. Kortið sýnir að kjarnastarfsemi og uppspretta verðmætasköpunar í landbúnaðarklasanum liggur í framleiðslu á landbúnaðarvörum, bæði hjá bændunum sjálfum og í afurðavinnslu mjólkur, kjöts og annarri framleiðslu.
Staðsetning skiptir miklu máli varðandi klasamyndun en hugmyndafræðin um klasa bendir til að mikill hluti af samkeppnisforskotinu liggi í ytra umhverfi fyrirtækja og þar er litið til staðsetningar sem meginuppsprettu forskotsins.“
Sigríður segir að þegar hún hafi skrifað ritgerðina hafi hún haft það í huga að starfsemi framtaksins Landbúnaðarklasinn var í upphafsskrefunum. Hún hafi séð það fyrir sér að það væri hægt að styðja við þau skref með því að kafa aðeins ofan í efnið, gera greiningu á klasanum og gefa yfirsýn yfir þessi fræði.