Landbúnaðarsafnið og Sögusetur íslenska hestsins undirrituðu samstarfssamning
Bjarni Guðmundsson, verkefnisstjóri Landbúnaðarsafns Íslands, og Kristinn Hugason, forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins í Hjaltadal, undirrituðu í Bændahöllinni á mánudag samþykkt um náið samstarf stofnananna.
Felur samningurinn í sér að hvers konar verkefnum sem upp kunna að að koma til þess aðilans sem betur hentar hverju sinni. Er þetta gert til að forðast tvíverknað og hvers kyns skörun í þeim verkefnum sem Landbúnaðarsafnið og Sögusetrið takast á hendur.
Einnig felur þetta samkomulag í sér virkt samstarf um söfnun og vörslu hvers konar gagna og muna og koma því fyrir hjá þeim aðilanum sem betur hentar. Það á m.a. við um verkefni og möguleika á hentugri og fullnægjandi vörslu.
Þá er gert ráð fyrir samstarfi um útgáfumál og gagnkvæmri miðlun upplýsinga. Með þessu samkomulagi hyggjast menn bæta vinnubrögð við hvers konar þekkingaröflun á landbúnaðarsögu Íslands og sögu vegferðar íslenska hestsins með þjóðinni og tryggja þannig stöðu beggja þátta til framtíðar.