Landbúnaður ekki bara fæðuöryggi
Á fundinum var Jóhann Gísli Jóhannsson, formaður Félags skógareigenda, kosinn formaður deildar skógareigenda á Búgreinaþingi Bændasamtaka Íslands. Aðrir í stjórn deildar skógarbænda, auk Jóhanns, eru Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir varaformaður og Guðmundur Sigurðsson.
Jóhann segir að fundurinn hafi farið friðsamlega fram og meðal þess sem hafi verið rætt er stefna Bændasamtaka Íslands og að skerpa þurfi sjálfbærni í stefnu samtakanna.
„Við ræddum einnig matvælaöryggi Íslands sem vissulega er mikilvægt atriði en einnig það að landbúnaður gefur meira af sér en bara mat. Eins og hráefni í klæði, dún og ull, og nytjar eins og viðinn sem skógarnir gefa af sér.“
Loftslagsmál
„Við teljum að það verði að auka vægi aðgerða í loftslagsmálum og ítreka að bændur séu varðmenn landsins, auk þess sem við lítum einnig svo á að helsta byggðamál landsins sé styrking rafveitukerfis á landinu og réttlæting orkusölu.
„Við þurfum að efla Kolefnisbrúna til muna svo hún geti stutt við bændur í því að undirbúa og framleiða vottaðar og söluhæfar kolefniseiningar. Á sama tíma má ekki vanrækja það kolefni sem binst í eldri skógum bænda sem eiga eðlilega að fá eitthvað fyrir sitt þar.
Á fundinum var einnig lögð fram tillaga um aukna skógarplöntuframleiðslu til að styrkja aðgerðir í loftslagsmálum og að ekki megi verða rof í framleiðslunni.“
Umhirða skóga og þróun timburafurða
„Svo virðist að endalaust þurfi að brýna á mikilvægi góðrar umhirðu skóga. Í samningum skógarbænda við Skógræktina er kveðið á um að Skógræktin komi að grisjun og það mætti efna betur að okkar mati.“
Jóhann segir að skógar landsins vaxi vel og afurðir þeirra aukast ár frá ári en að hefð fyrir viðarvinnslu sé lítil hérlendis, þrátt fyrir að hún fari vaxandi megi þar ekki slaka á og vill fundurinn hvetja til að það starf verði eflt enn frekar.
Fræðsla og félagsmál
Að mati stjórnar deildar skógareigenda þarf að efla fræðslu í skógrækt fyrir bæði eldri og yngri skógarbændur. Grein skógarbænda fer vaxandi og mikilvægt að henni sé fylgt úr hlaði.
„Það þarf einnig að auðvelda innskráningarkerfi Bændasamtakanna. Fjölmargir skógarbændur áttu í basli með að skrá sig í búgreinadeild skógarbænda hjá BÍ. Viljinn var til staðar en þrátt fyrir það er deildin varla svipur hjá sjón miðað við Landssamtök skógareigenda. Þar er að miklu leyti hægt að kenna slöku innskráningarkerfi um. Úrbóta er krafist,“ segir Jóhann.
Fulltrúi deildar skógareigenda á Búnaðarþingi 2022 er Jóhann Gísli Jóhannsson.