Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Yoshinori Ogawa aðstoðarframkvæmdarstjórinn framkvæmdasviðs Zen-Noh, Tooru Anzai framkvæmdastjóri skipulagssviðsins og Tooru Tsumura ritari.
Yoshinori Ogawa aðstoðarframkvæmdarstjórinn framkvæmdasviðs Zen-Noh, Tooru Anzai framkvæmdastjóri skipulagssviðsins og Tooru Tsumura ritari.
Fréttir 14. apríl 2016

Landssambandið Allir bændur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Zen-Noh eru landssamtök sem mynduð eru af um 700 samvinnufélögum bænda og öðrum aðilum tengdum landbúnaði í Japan. Meðlimir samtakanna eru ríflega tíu milljón og þar af eru 4,6 milljón bændur. Aðrir meðlimir tengjast landbúnaði á einn eða annan hátt við vinnslu, dreifingu eða sölu landbúnaðarafurða eða annarri starfsemi samtakanna.

JA Group er samsteypa sem Zen-Noh á og er hluti af. JA Group er í margs konar rekstri sem tengist öllum þáttum mannlífs í Japan auk þess að stunda öflug millilandaviðskipti. Starfsmenn JA Group eru rúmlega átta þúsund. Zen-Noh er stærsta samvinnufélag bænda í heimi og er stytting á Zen Nogyo Kyodo Kumiai Kyoukai sem í lauslegri þýðingu útleggst Landssambandið Allir bændur, eða Allir bóndabæir. Í krafti stærðar sinnar sjá samtökin bændum fyrir rekstrarvörum á lægra verði en annars eru í boði og tryggja markað fyrir afurðir þeirra.

Blaðamaður Bændablaðsins heimsótti höfuðstöðvar JA Group í Tókýó fyrir skömmu í fylgd Halldórs Elíasar Ólafssonar, starfsmanns íslenska sendiráðsins í Japan. Auk þess að vera túlkur í heimsókninni aðstoðaði Halldór við skipulagningu hennar.

Höfuðstöðvar japönsku bændasamtakanna eru í 38 hæða háhýsi í miðborg Tókýó og var fundurinn á 36. hæð á skrifstofu með frábæru útsýni yfir borgina þrátt fyrir þoku.

Fyrir hönd Zen-Noh mættu á fundinn Tooru Anzai, framkvæmdastjóri skipulagssviðs, Yoshinori Ogawa, aðstoðarframkvæmdastjóri skipulagssviðs, og Tooru Tsumura ritari.

Frjáls aðild

Að sögn Ogawa eru býli í Japan almennt lítil eða meðalstór en lítið um mjög stór bú. Aðild bænda að Zen-Noh er frjáls og ekki allir bændur í Japan hluti af samtökunum. Hann segir að í Japan séu nokkur samvinnufélög bænda en að Zen-Noh sé langstærst. Meðlimir Zen-Noh borga fyrir eða öllu heldur kaupa sig inn í samvinnufélag bænda hver í sínu héraði og verða þannig hluthafaeigendur að JA Group og njóta eftir það þjónustu samsteypunnar.

Uppbyggingin er ekki ósvipuð og var hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga á meðan Sambandið var og hét.

Meðlimir Zen-Noh eru rúmlega tíu milljónir og þar af eru um 4,6 milljónir bændur. Aðrir meðlimir tengjast matvælaframleiðslu á annan hátt, til dæmis sem sölu- og kynningaraðilar, starfsmenn afurðastöðva eða eru dreifingaraðilar. Í þessari tölu eru einnig starfsmenn bankanna og tryggingafélagsins og annarrar starfsemi JA Group.

Í máli Ogawa kemur fram að starfsemi JA Group er mjög mikil á stórum þéttbýlissvæðum eins og Tókýó og Ósaka þrátt fyrir að þar sé enginn landbúnaður sem teljandi getur og á þar meðal annars við banka, tryggingar og verslanir.

Framleiðslan landbúnaðarvara

Tooru Anzai, framkvæmdastjóri skipulagssviðs Zen-Noh, segir  að landbúnaður sem hluti af vergri landsframleiðslu hafi dregist saman undanfarna áratugi. Framleiðsla á landbúnaðarvörum í Japan var 4,7 trilljón jen árið 1970 og var um 1,6% af landsframleiðslunni. Hún jókst í 11,5 trilljón jen árið 1990 og var rúm 4% landsframleiðslunnar og munaði þar mest um aukna framleiðslu á grænmeti og búfjárafurðum. Árið 2010 var framleiðslan 8,1 trilljón jen og rétt rúm 3% af vergri landsframleiðslu og hefur verið svipuð síðan þá.

Ástæðan fyrir minnkandi vægi landbúnaðar sem hluta af landsframleiðslunni síðustu áratugi segir hann vera að Japan hafi flutt út mikið af tæknivörum og hlutfall þeirra af landsframleiðslunni aukist.
Anzai segir að samhliða minnkandi vægi landbúnaðarvara sem hluta af vergri landsframleiðslu hafi landbúnaðarframleiðsla einnig dregist saman.

Minnkandi neysla á hrísgrjónum

Í máli Ogawa kemur fram að hrísgrjónarækt er gríðarlega stór þáttur í japönskum landbúnaði. Þar á eftir kemur ávaxta- og grænmetisræktun, kjöt-, eggja- og mjólkurframleiðsla. Hann segir að ræktun hrísgrjóna sé gríðarlega mikilvæg í sögulegu samhengi en að undanfarna áratugi hafi dregið talsvert úr henni og neyslu hrísgrjóna í landinu. Árið 1970 voru hrísgrjón ræktuð á tæplega þremur milljónum hektara en í dag er ræktunin komin niður undir 1,6 milljón hektara. Hann segir þetta talsvert áhyggjumál innan samtakanna og að þeir séu að reyna að auka neysluna á ný og um leið innanlandsframleiðslu á hrísgrjónum. 

Innflutningur á hrísgrjónum, aðallega frá Bandaríkjunum, hefur aukist mikið og verð á þeim er lægra en á hrísgrjónum sem ræktuð eru í Japan. Anzai segir að verð á innfluttum landbúnaðarvörum sé almennt lægra en á innlendri framleiðslu í Japan og að samtökin hafi brugðist við með því að hvetja fólk til að neyta frekar innlends matar en innflutts.

Alvarlegast segja þeir ástandið vera í framleiðslu á hrísgrjónum þar sem hún hafi dregist saman um helming. Stjórnvöld í Japan hafa brugðist við þessu með því að leggja 90% verndartoll á innflutt hrísgrjón.

Bændasamtökin hafa staðið fyrir ýmiss konar kynningarstarfi í sjónvarpi, í skólum og með útgáfu kynningarefnis um hefðbundið japanskt mataræði eins og onigiri sem eru eins konar hrísgrjónapúðar sem settir eru í kjöt, grænmeti eða fisk og eldri kynslóðir borða mikið af.

Afleiðingin af þessu er að innlend hrísgrjón eru meira notuð til matargerðar en innflutt í tilbúna rétti og sem dýrarfóður.

Samhliða innflutningi á hrísgrjónum hefur neysla þeirra dregist saman í landinu. Anzai segir að yngra fólk í Japan borði minna af hrísgrjónum en eldri kynslóðin. Hann segir að ungt fólk nenni ekki lengur að eyða tíma í undirbúninginn sem þarf til að matreiða góð hrísgrjón. Ungt fólk borðar því meira af annars konar mat eins og til dæmis brauði, kjöti og innfluttum núðlum og því um kúvendingu í japanskri matarhefð að ræða.

Í framhaldi af þessari umræðu bætti Ogawa við að Japanir ræktuðu talsvert af tei og ávöxtum og á Okinawa-eyju, sem er syðsta eyjan í eyjaklasanum sem myndar Japan, ræktuðu þeir banana og spurði forvitnislega um leið hvort það væri satt að á Íslandi væru ræktaðir bananar í gróðurhúsum sem hitaðir væru upp með jarðhita.

Opinber stuðningur og niðurgreiðslur

Stuðningur ríkisins við innlenda matvælaframleiðslu og niðurgreiðsla á matvælum er mikið í umræðunni í Japan um þessar mundir. Anzai segir að landbúnaðarframleiðsla sé ríkisstyrkt og nefnir sem dæmi að meðalkostnaður við framleiðslu á 60 kílóum af hrísgrjónum sé 1300 jen og að talsvert af þeim kostnaði sé greiddur niður af ríkinu. Sama gildir um framleiðslu á öðrum landbúnaðarvörum en stuðningsupphæðin er mismunandi eftir búgreinum.

Auk þess að styðja við matvælaframleiðsluna beint styður ríkið ýmsa aðra starfsemi sem tengist framleiðslu-, dreifingu- og markaðssetningu innlendra landbúnaðarvara.

Nánast allur matur sem fluttur er til Japan ber toll sem ætlað er að vernda innlenda framleiðslu en engin eins háan og hrísgrjón, auk þess er innflutningskvóti á sumum matvælum eins og til dæmis mjólkurafurðum.

Leyndin yfir TPP-samningunum áhyggjuefni

Japan er hluti af samningaviðræðunum tólf Kyrrahafslanda um afnám tolla, Trans-Pacific Partnership, eða TPP-samningi. Anzai segir að opinberlega séu samtökin á móti samningnum en í raun hafi þau ekkert á móti viðræðunum sem slíkum. Það er leyndin sem hvílir yfir samningsgerðinni sem veldur efasemdum um endanlega útkomu samninganna.

Hann segir að eins og flestar þjóðir vilji Japanir flytja meira út og að þeir séu sífellt að leita nýrra markaða, hvort sem það er fyrir landbúnaðarvörur eða annað sem framleitt er í landinu. Hann segist því eiga von á að það verði breytingar á næstu misserum hvað varðar tilhögun innflutningstolla.

Takmarkað landnæði

Út um gluggann á hraðlestinni frá Ósaka til Tókýó sést talsvert af ræktunarlandi, grænmetis- og kornakrar, gróðurhús og lágar hlíðar með terunnum en ekkert búfé. Þegar gestgjafarnir eru spurðir hvort búféð sé allt alið innanhúss eða á öðrum svæðum í landinu segja þeir að búfjárhald sé meira þar sem byggð er dreifðari, eins og á Hokkado og Kyushu-eyjum sem eru nyrst og syðst í eyjaklasanum.

Þeir segja að þar sem landsnæði er takmarkað í Japan, einungis 30% þess er nýtt og 70% er fjallendi og skógar, sé það vel nýtt og oft þröngt. Umræðan um lausagöngu búfjár er því ekki hávær í landinu.

Mikið um litlar rekstrareiningar

Að söng Anzai eru mörg býli í Japan smá og því ekki eins hagkvæmar rekstrareiningar og stærri bú.

Bændasamtökin leggja ríka áherslu á að hjálpa bændum við að gera reksturinn sem hagkvæmastan með margvíslegri ráðgjöf. Gangi það ekki geta býlin hugsanlega misst sína styrki sem bændasamtökin eru ábyrg fyrir gagnvart ríkinu.

Í framhaldi af þessu segir Anzai að eitt af hlutverkum Zen-Noh sé að kynna fyrir bændum nýja tækni, verklag og ný yrki í matjurtarækt til að ýta undir aukna hagkvæmni í rekstri.

Aðspurður segir Anzai að býli í Japan séu allt frá því að vera rúmur hektari að stærð upp í hundruð hektara. Fjöldi lítilla býla er mikill og þau allra minnstu hobbíbúskapur það sem ábúendur vinna aðra vinnu ásamt því að rækta matjurtir fyrir sjálfa sig og selja það sem umfram er á bændamörkuðum. Mörg minni býlanna mynda samvinnufélög þar sem ábúendur hjálpast að við ræktunina og markaðssetningu afurðanna.

Býli sem leggja stund á kjöt-, mjólkur- og eggjaframleiðslu eru, eðli starfseminnar vegna, stærri en býli þar sem um matjurtarækt er að ræða. Anzai segir að til að rekstur býla standi þokkalega undir sér og ábúendur lifi af framleiðslunni þurfi þau að lágmarki að vera um tíu hektarar að stærð.

Hann segir að áhætta við ræktun í Japan sé talsverð þar sem fellibylir séu tíðir í landinu og að þeir eyðileggi auðveldlega uppskeruna á stórum svæðum þar sem þeir ganga yfir. Ræktun á hrísgrjónum er sérstaklega viðkvæm hvað þetta varðar og skaðar á uppskerunni tíðir. Hann segir að í dag sé mjólkurframleiðsla líklega sá landbúnaður sem stendur hvað best að vígi og gefi mest af sér.

Anzai segir að bændum í Japan muni fækka á næstu áratugum og býlin stækka,  annað sé óhjákvæmilegt. Bændur í landinu eru að aldast og erfitt að fá ungt fólk til að taka við litlum býlum. Stefna samtakanna er að leyfa bændum að klára starfsferil sinn á búunum og ef enginn tekur við að sameina það öðrum býlum og stækka þau þannig.

Áhersla á dýrar matvörur

Útflutningur á matvælum frá Japan er mestur til Hong Kong og Singapúr enda leggja þeir megináherslu á nærmarkaði í Asíu frekar en markaði í Bandaríkjunum eða löndum Evrópu.

Lögð er áhersla á að flytja út dýrar og vandaðar vörur í staðinn fyrir mikið magn, til dæmis dýr hrísgrjón, dýra ávexti og nautakjöt sem hefur orð á sér fyrir mikil gæði.

Anzai segir að öryggisráðstafanir og reglur í sambandi við innflutning á matvælum í Asíu séu strangar og að japanskir útflytjendur þurfi að standast strangar kröfur hvað varðar hættu á sýkingum áður en þeir geta flutt matvæli til annarra landa.

Kjarnorkuslysið í Fukushima árið 2011 setti talsvert strik í reikninginn varðandi útflutning á matvælum frá Japan þar sem margar þjóðir krefjast vottorða um að engin geislavirkni mælist í þeim áður en innflutningur á japönskum matvælum er heimilaður. Í Evrópusambandinu eru til dæmis í gildi mjög strangar reglur um innflutning á matvælum frá ákveðnum svæðum í Japan nema þau hafi farið í gegnum mjög strangt eftirlit.

Þrátt fyrir talsverðan áróður stjórnvalda um að óhætt sé að neyta matvæla sem framleidd eru í og kringum Fukushima hefur gengið illa að sannfæra Japani um að svo sé. Enn sem komið er forðast þorri almennings matvæli þaðan. Reglur um upprunamerkingar eru strangar í Japan og því auðvelt að skoða uppruna þeirra og forðast matvörur frá ákveðnum svæðum, eins og Fukushima, kjósi fólk það.

Varnir gegn búfjársjúkdómum og hrár kjúklingur

Varnir gegn búfjársjúkdómum í Japan eru mjög strangar enda markmiðið að um hágæðavörur sé að ræða. Gæðastjórnun og eftirlit með matvælaframleiðslu er strangt og viðurlög ströng við brotum á þeim reglum.
Krafa neytenda í Japan um góðan mat er mikil og neytendavitund í landinu er mjög rík. Fyrirtæki, hvort sem það eru framleiðendur, innflytjendur eða veitingahús, sem staðin eru að einhverju misjöfnu eru hreinlega sniðgengin og þannig bolað af markaði.

Eitt af því sem er í boði á matsölustöðum í Ósaka og líklega víða í landinu er hrár marineraður kjúklingur og gerjaðar sojabaunir sem meðlæti. Eftir dálítið hik við að smakka reyndist rétturinn mjög bragðgóður og engum varð meint af við neyslu hans.

Viðmælendurnir hjá Zen-Noh hlógu upphátt þegar þeir voru spurðir hvers vegna það væri hrár kjúklingur á boðstólum á veitingahúsum í Japan en varað við neyslu hans nánast alls taðar annars staðar í heiminum. „Bara í Japan,“ svöruðu þeir og hlógu enn meira.

Skylt efni: Japan | Landbúnaður | Zen-Noh

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...