Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hækkun mjólkurverðs til bænda nemur 4,56% sem samsvarar hækkun gjaldaliða í rekstri kúabús.
Hækkun mjólkurverðs til bænda nemur 4,56% sem samsvarar hækkun gjaldaliða í rekstri kúabús.
Mynd / ghp
Fréttir 8. september 2022

Lágmarksverð mjólkur hækkar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Ný verðlagsnefnd búvöru hefur tekið ákvörðun um hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda og heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur.

Lágmarksverð 1. fl. mjólkur til bænda mun þannig hækka um 4,56% úr 111,89 kr./ltr. í 116,99 kr./ ltr. frá og með 1. september sl. og hækkar heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur um 3,72% en sú breyting tekur gildi þann 8. september.

Verðhækkanirnar eru komnar til vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og úrvinnslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun sem var 1. apríl 2022. Frá síðustu verðákvörðun til septembermánaðar hafa gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 4,56% að meðaltali en þar vegur þyngst hækkun á rekstrarvörum (rúlluplasti og garni), olíukostnaður og vaxtahækkanir.

Á sama tímabili hefur vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðvanna hækkað um 2,67% og er það grundvöllur hækkunar heildsöluverðs auk hækkunar á afurðaverði. Á fyrsta fundi nýrrar verðlagsnefndar var einnig tekið fyrir erindi til nefndarinnar er varðar tillögur starfshóps um verðlagsmál í nautgriparækt. Sammæltist nefndin um að ráðast í uppfærslu á verðlagsgrundvelli mjólkur og ákveðið var að formaður í samstarfi við matvælaráðuneytið myndi gera tillögu um framkvæmd og verkáætlun verkefnisins, sem tekið yrði fyrir á næsta fundi sem ákveðinn hefur verið þann 6. október.

Formaður nautgripabænda, NautBÍ, Herdís Magna Gunnarsdóttir, segir ánægjulegt að loksins stefni í að uppfærður verðlagsgrundvöllur líti dagsins ljós.

„Verðlagsgrunnur kúabús er orðinn yfir 20 ára gamall, grunnbúið er með 188.000 lítra framleiðslu auk uppeldis geldneyta en á síðustu áratugum hefur orðið gríðarleg framþróun í íslenskri mjólkurframleiðslu,“ segir hún m.a. í aðsendri grein sem finna má á bls. 49 í þessu tölublaði. Hún bendir á þær breytingar sem orðið hafa á þessum 20 árum og að árið 2021 hafi meðalinnleggið verið um 288.000 lítrar.

„Það gefur því auga leið að núverandi grundvöllur lýsir ekki hagkvæmu nútímabúi.“

Verðlagsnefnd búvara 2022–2024

Ný verðlagsnefnd búvara var skipuðu í sumar og kemur til með að starfa árin 2022-2024. Matvælaráðherra skipaði nefndina á grundvelli 7. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Tveir fulltrúar eru tilnefndir af samtökum launþega, tveir af Bændasamtökum Íslands og tveir af Samtökum afurðastöðva í mjólkurframleiðslu. Ráðherra tilnefnir einn fulltrúa og er hann formaður nefndarinnar. Varamenn eru tilnefndir með sama hætti.

Í nefndinni eiga sæti: Kolbeinn Hólmar Stefánsson, skipaður formaður án tilnefningar, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Reynir Þór Jónsson, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands, Elín Margrét Stefánsdóttir og Pálmi Vilhjálmsson, tilnefnd af Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Helga Ingólfsdóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands og Hrannar Már Gunnarsson, tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Varamenn nefndarinnar eru: Elísabet Anna Jónsdóttir, Rafn Bergsson, Hermann Ingi Gunnarsson, Ásvaldur Þormóðsson, Þórunn Andrésdóttir, Björn Snæbjörnsson og Sonja Ýr Þorbergsdóttir.

Einnig hefur ráðherra tilnefnt Hálfdán Óskarsson sem fulltrúa minni vinnslufyrirtækja mjólkur sem áheyrnarfulltrúa í nefndina og hefur hann tillögurétt. Með nefndinni starfar jafnframt Arnar Freyr Einarsson, hagfræðingur í matvælaráðuneytinu.

Skylt efni: Verðlagsnefnd

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...