Leikfélög Grímsness og Biskupstungna skiptast á sýningarárum: Borg & Reykholt
Nágrannasveitarfélögin Borg í Grímsnesi og Reykholt í Biskupstungum hafa haldið þeim vana síðastliðin ár að skiptast á uppsetningum sýninga. Sýnt er við góðar undirtektir er birta fer af degi, oftast er fer að vora.
Grímsnesingar voru meðal annars í fréttum Morgunblaðsins í árslok 1966, en þá höfðu félagsmenn Ungmennafélagsins Hvöt staðið í æfingum á leikritinu Maður og kona eftir Jón Thoroddsen. Alls átján manns voru í sýningunni og var mikil harka og kraftur í leikhópnum, en samkvæmt fréttinni lögðu sumir á sig margra km ferðalag til þess að mæta á æfingar. Búist var við fjölda manns á sýningu og fólk varað við að ferðast langar leiðir án þess að vera búið að tryggja sér miða.
Á tímapunkti yfir árin síðan, lagðist áhugi fyrir leiklistinni þó niður. Einhverjar voru þó glæðurnar því árið 2015 var leikfélagið endurvakið í tilefni 50 ára afmælis félagsheimilisins Borgar og heitir nú Leikfélagið Borg. Gaman er að segja frá því að leikfélagið í nafni Hvatar, átti stóran þátt í að afla peninganna sem nýttir voru til við uppbyggingu félagsheimilisins sem nú hefur staðið í 57 ár.
Síðan leikfélagið hóf starfsemi sína á ný hafa verið settar upp sýningarnar „Er á meðan er“ 2016, „Svefnlausi brúðguminn“ 2017 og „Rjúkandi ráð“ 2019. Formaður leikfélagsins, Guðný Tómasdóttir, segir að mikil áhersla hafi verið lögð á unglingastarf og nú sé kominn inn sterkur og áhugasamur unglingahópur. Leikfélagið Borg tekur einnig alltaf þátt í Grímsævintýrum – skemmtun sem haldin er árlega á Borg í Grímsnesi helgina eftir verslunarmannahelgi. Þar er flutt lítið leikrit tengt ævintýrunum auk þess sem prinsessurnar í þeim eru duglegar við að heilsa upp á gesti. Leikarahópurinn hefur verið oftast um 10-15 auk aðstoðarfólks sem er ómissandi partur af þessu.
Jónas Jónasson í hlutverki leikstjóra
Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna í Reykholti var að sama skapi endurvakin eftir einhvern dvala, árið 1991, og frumsýndi íslenska gamanleikinn „Gripið í tómt“ eftir Pétur Eggerz, sem einnig leikstýrði verkinu. Hafa síðan þá verið regluleg sýningahöld öðrum til ánægju.
Fyrst heyrist þó af leiklistartalentum félagsins í ársbyrjun 1966 þar sem formaður var Björn Sigurðsson, bóndi í Úthlíð. Þá höfðu staðið yfir þriggja mánaða æfingar ameríska gamanleiksins „Er á meðan er“ í þýðingu Sverris Thoroddsen, eftir þá Moss Hart og George Kaufmann.
Frumsýningin var í félagsheimilinu Aratungu og var leikstjóri hinn kunni útvarpsmaður Jónas Jónasson, en hann hlaut mikið lof og skv. blaðagrein Tímans þann 18. janúar sama árs kemur fram að blaðamanni þykir mikið til koma. „Efalaust er hlutur leikstjórans þó stærstur. Honum hefur tekizt, að byggja upp undragóða heildarmynd úr þeim efnivið, sem ekki er á allra meðfæri að fága svo vel, sem hér var gert. Án fórnfýsi fólksins, áhuga þess og félagsþroska hefði honum þó ekki tekizt, að byggja upp jafn eftirminnilega sýningu og raun varð á og halda hinum þrjú til fjögur hundruð áhorfendum, sem á frumsýningunni voru í vaxandi spennu allt frá því tjaldið var fyrst dregið frá, og þar til afi gamli talaði við drottin sinn í leikslok, þremur klukkustundum síðar.“
Leiktjöld sýningarinnar voru í höndum Jóns Dalman og Eiríkur Sveinsson var Ijósameistari og leiksviðsstjóri Þorfinnur Þórarinsson. Alls unnu um 30 manns að sýningunni en hlutverk í leikritinu sjálfu eru 19 talsins.
Ef væri ég gullfiskur
En aftur til nútímans. Frá þurfti að hverfa, eftir nokkrar sýningar leikfélags Borgar á síðasta ári – vegna faraldurs Covid – en nú hefur Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna tekið upp þráðinn og æfir í félagsheimili Aratungu eins og enginn sé morgundagurinn. Um er að ræða uppsetningu á verkinu „Ef væri ég gullfiskur“ sem er spéfarsi eftir Árna Ibsen og mikil tilhlökkun í leikendum að sýna sig og sjá aðra.
Áætluð sýning er þó ekki fyrr en nær dregur aprílmánuði, en aðstandendur og leikarar gefa sig alla þessa dagana við æfingar og utanumhald. Gott er að fylgjast með hér í Bændablaðinu er sýningar verða auglýstar.