Leitað að bestu matarfrumkvöðlum landsins til þátttöku í hraðlinum Til sjávar og sveita
Viðskiptahraðallinn Til sjávar og sveita verður gangsettur í þriðja sinn nú í nóvember. Icelandic Startups, sem hafa stýrt viðskiptahraðlinum undanfarin tvö ár, leita nú að bestu matarfrumkvöðlum landsins til þátttöku.
Á þessum tveimur árum hafa 19 fyrirtæki farið í gegnum hraðalinn og sum náð markverðum árangri bæði á innlendum og erlendu mörkuðum.
Umsóknarfrestur er til 1. nóvember næstkomandi en hraðallinn hefst formlega 15. nóvember, stendur yfir í fjórar vikur og lýkur með uppskerudegi 10. desember. Hægt er að sækja um á vef Til sjávar og sveita.
Þátttakendur fá aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu og njóta leiðsagnar reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annarra sérfræðinga. Þá er boðið upp á ýmis tækifæri til að koma vörunum á framfæri.
Sérstakur markaðshraðall í ár
Í ár verður hraðallinn keyrður sem sérstakur markaðshraðall að erlendri fyrirmynd, í samstarfi við GAN - Global Accelerator Network.
Nettó eru bakhjarlar hraðalsins annað árið í röð og taka þau virkan þátt í allri framkvæmd hraðalsins og deila þar sinni þekkingu og reynslu þegar kemur að markaðssetningu á matvöru.
Óskað er eftir fyrirtækjum sem eru langt komin í vöruþróun, tilbúin með vöru á markað eða hafa hafið markaðssókn. Aðeins fimm fyrirtæki verða tekin inn í hraðalinn og er því leitað er að bestu matarsprotum landsins sem munu í gegnum hraðalinn fá öflugan undirbúning og stuðning fyrir markaðssókn innanlands og utan.
Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, segir að þetta sé í fyrsta sinn sem hraðallinn er keyrður með áherslu á markaðssókn og útrás. „Við erum spennt fyrir verkefninu. Markmiðið er skýrt, við viljum styðja við útrás íslenskra matvæla og teljum þetta vera rétta leið. Svona markaðshraðlar eru sannprófaðir og við gerum þetta með góðum stuðningi frá GAN.“
Pure Natura var þátttakandi 2019, en fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á fæðubótarvörum sem unnar eru meðal annars úr íslenskum innmat.