Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) hafi verið veitt leyfi til gas- og jarðgerðar úr matarafgöngum, sem falla til í heimiliseldhúsum og stóreldhúsum.
Stöðin hefur einnig leyfi til að vinna úr ósöluhæfum matvælum frá verslunum og heildsölum. Hráefni sem ætlað er fyrir stöðina skal vera sérflokkað á upprunastað og sett í söfnunarpoka áður en það fer í brúnar flokkunartunnur.
Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög þar sem bann er lagt við urðun á niðurbrjótanlegum úrgangi, lífúrgangi. Leyfisveiting Matvælastofnunar kemur í kjölfar tíðinda af góðum árangri í sérsöfnun og flokkun á matarleifum á síðasta ári á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að GAJA muni nú gegna lykilhlutverki í endurnýtingu næringarefna í matarleifum og stuðla þannig að hringrás þeirra.
Minnir Matvælastofnun á að endurvinnslan á næringarefnunum hefjist í eldhúsunum og mikilvægt sé að hráefnin séu flokkuð samviskusamlega og þess gætt að óleyfileg efni fari ekki með matarleifum í söfnunarpokana.
Í umfjöllun Sorpu um árangurinn á síðasta ári kemur fram að mælingar í GAJA sýni að hreinleiki í matarleifum árið 2023 hafi verið 98 prósent, sem sé gríðarlega góður árangur og til marks um að íbúar standi vel að flokkun matarleifa.