Leyfi fyrir Desis, Avalon, Rovral Aquaflo og Harmony 50 SX falla úr gildi
Í kjölfar ákvarðana Umhverfisstofnunar um breytingar á gildistíma tímabundinna skráninga fyrir plöntueitur eða plöntuverndarvörum hefur tímabundið leyfi til skráningar á eftirfarandi efna fallið úr gildi, Desis, Avalon, Rovral Aquaflo og Harmony 50 SX.
Í tilkynningu á vef umhverfisstofnunnar segir að við gildistöku efnalaga númer 61/2013 þann 17. apríl 2013 hafi fallið úr gildi allar skráningar varnaefna samkvæmt ákvæðum laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, og reglugerðar númer 50/1984, um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra.
Tímabundin skráning
Samkvæmt bráðabirgðaákvæði efnalaga var hægt að sækja um tímabundna skráningu fyrir plöntuverndarvörur sem voru á skrá við gildistöku þeirra. Sem stendur hafa 113 plöntuverndarvörur leyfi til þess að vera á markaði hérlendis á grundvelli þessa ákvæðis.
Reglugerð númer 1002/2014 er gefin út á grundvelli ákvæða í efnalögum og gildir um gagnkvæma viðurkenningu á tilteknum markaðsleyfum fyrir plöntuverndarvörum sem áður hafa verið veitt markaðsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli tilskipana 79/117/EB og 91/414/EB, áður en reglugerð (EB) númer 1107/2009 gekk í gildi þann 14. júní 2011.
Reglugerðin brúar bilið á milli eldri séríslenskrar löggjafar á þessu sviði og nýrrar löggjafar Evrópusambandsins um setningu plöntuverndarvara á markað.
Markaðsleyfi um plöntueitur
Reglugerð númer 544/2015 um plöntuverndarvörur var sett til innleiðingar á reglugerð (EB) númer 1107/2009 um setningu plöntuverndarvara á markað. Reglugerðin nær til þeirra plöntuverndarvara er innihalda virk efni sem voru áhættumetin á vettvangi ESB eftir þann 14. júní 2011.
Í kjölfar ákvarðana Umhverfisstofnunar um breytingar á gildistíma tímabundinna skráninga fyrir plöntuverndarvörum kemur fram í að:
Tímabundin skráning T-2013-016 fyrir plöntuverndarvöruna Decis fellur úr gildi þann 31.10.2018. Heimild til sölu og dreifingar á fyrirliggjandi vörubirgðum rennur út 30.4.2019. Heimild til notkunar, geymslu og förgunar rennur út 30.4.2020.
Tímabundin skráning T-2014-012 fyrir plöntuverndarvöruna Afalon fellur úr gildi þann 31.7.2018. Heimild til sölu og dreifingar á fyrirliggjandi vörubirgðum rennur út 31.1.2019. Heimild til notkunar, geymslu og förgunar rennur út 31.1.2020.
Tímabundin skráning T-2013-011 fyrir plöntuverndarvöruna Rovral Aquaflo fellur úr gildi þann 31.10.2018. Heimild til sölu og dreifingar á fyrirliggjandi vörubirgðum rennur út 30.4.2019. Heimild til notkunar, geymslu og förgunar rennur út 30.4.2020.
Tímabundin skráning T-2014-034 fyrir plöntuverndarvöruna Harmony 50 SX féll úr gildi þann 6.7.2017. Heimild til sölu og dreifingar á fyrirliggjandi vörubirgðum rennur út 31.1.2018. Heimild til notkunar, geymslu og förgunar rennur út 31.1.2019.