Lifði af harða útivist í Gljúfurárgili í vetur
Höfundur: HKr/JÞ
Hinn 24. maí síðastliðinn bankaði útigenginn lambhrútur upp á við fjárhólf hjá lambám á bænum Hnjúki í Skíðadal. Hann hafði ekki skilað sér af fjalli síðastliðið haust.
Jón Þórarinsson, bóndi á Hjúki, segir að hrúturinn hafi sést síðast hinn 27. október í haust þegar farið var í eina af mörgum aukaferðum fram á afrétt til að kíkja eftir eftirlegukindum.
„Þá var hann með veturgamalli móður sinni og einu aukalambi. Þá voru þau á syðri barmi Gljúfurárgils. Það er að meiri hluta illfært gljúfur bæði mönnum og skepnum en þar rennur affall Gljúfurárjökuls niður.
Hinn 30. október var svo gerður sérstakur leiðangur af átta mönnum fram á afrétt til að handsama þessar kindur ásamt nokkrum öðrum sem sést hafði til á öðrum stöðum á afréttinni.
Þessi hrútur sást þá hvergi og var hann þess vegna afskrifaður enda ísing á gilröðunum og áin í klakaböndum.“
Eftir að hrúturinn skilaði sér heim að Hnjúki fóru menn að huga að því hvar hann hafi getað hafst við allan þennan tíma. Þá bentu slóðir í snjó vafalaust til þess að hann hafi verið í Gljúfurárgili í allan vetur.
„Gilið virðist hafa gefið honum góða vist eftir holdafari og hornahlaupum að dæma en ný hornahlaup mældust 5 sentímetrar og var hann einnig að miklum hluta genginn úr ullinni,“ segir Jón. Samt munu veður oft hafa verið mjög slæm í vetur þar sem hrúturinn hafðist við.
Er frá bænum Grund í Svarfaðardal
Í ljós kom að þessi hrausti útileguhrútur er frá bænum Grund í Svarfaðardal. Segir Jón í raun undarlegt að hrúturinn hafi getað hafst þarna við í allan vetur án þess að nokkur yrði hans var. Mikil umferð vélsleðamanna hefur verið með gljúfurbörmunum í vetur. Auk þess sem skíðamenn, sem selfluttir eru á þyrlum á fjöll þar í kring, renna sér þarna niður. Þá segir hann að hrúturinn hafi ekki búið við mikla fjallakyrrð allan þennan tíma því stöðugt yfirflug er af þyrlum á svæðinu. Þær hafa haft aðsetur á Klængshóli og hafa flogið þaðan með skíðamenn og aðra ferðalanga m.a. á Gljúfurárjökul og fjöllin þarna í kring. Þessu flugi fylgir mikill hávaði.