Lítið atvinnuleysi á Suðurlandi
Atvinnuleysi á Suðurlandi er nú 1,7 % og minnkaði um 0,3% frá síðasta mánuði.
Um 300 manns eru í atvinnuleit á svæðinu sem nær frá Hornafirði í austri til Helliðsheiðarvirkjunar í suðri.
Skráð atvinnuleysi á landinu öllu er 2,8%, því má segja að atvinnuleysi á Suðurlandi sé með því lægsta á landinu öllu og er búið að ná sama jafnvægi og fyrir Covid.
„Það er eitthvað að berast inn af störfum frá fyrirtækjum á Suðurlandi en þó mættu vera fleiri skráningar. Þau störf sem eru að koma inn eru flest í ferðaþjónustu, framleiðslugreinum og þjónustu,“ segir Svava Júlía Jónsdóttir, forstöðumaður hjá Vinnumálastofnun á Suðurlandi.
Flóttamönnum fjölgar á svæðinu
Svava Júlía segir að Vinnumálastofnun leitist ávallt við að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir almenna atvinnuleitendur, atvinnuleitendur með skerta starfsgetu og flóttamenn.
Flóttamönnum hefur fjölgað talsvert á svæðinu og mun sú þróun halda áfram inn í haustið.
„Við erum við alltaf reiðubúin í samstarf við atvinnurekendur og hvetjum þá til að skrá inn starf hjá okkur í gegnum heimasíðuna okkar. Ávinningurinn er mikill á báða bóga.
Atvinnurekandi fær starfsmann, sem vill leggja sitt af mörkum og atvinnurekandinn sýnir samfélagslega ábyrgð, eykur fjölbreytileika í starfsmannahópnum og stuðlar að jákvæðari ímynd fyrirtækis,“ segir Svava Júlía.