Lög og reglur um kaup erlendra aðila á bújörðum verða endurskoðaðar
Í tilkynningu sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi frá sér í dag kemur fram að skipaður verði þriggja manna starfshópur til að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins.
Kemur þetta í kjölfar umræðu sem hefur verið í þjófélaginu um árabil og varðar kaup erlendra aðila á bújörðum hér á landi. Hafa dæmin sýnt að einn aðili hefur keypt margar jarðir á stóru svæði án þess að þar sé fyrirhuguð búseta eða að ræktanlegt land sé nýtt.
Í tilkynningunni segir:
„Hópnum er jafnframt ætlað að skoða þær takmarkanir sem er að finna í löggjöf nágrannalanda Íslands eins og Noregs, Danmörku og Möltu og rúmast innan marka 40. gr. EES-samningsins. Í dönsku jarðalögunum er m.a. eignarhald á landbúnaðarlandi takmarkað og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara. Þá mun hópurinn gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar breytingar á lögum í samræmi við framangreint.
Hópurinn verður skipaður þremur fulltrúum; einum tilnefndum af innanríkisráðherra, einum tilnefndum af Bændasamtökum Íslands en formaður hópsins verður skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra án tilnefningar. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en í júní 2017.“