Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Báðar þessar myndir sýna bíla í umferðinni með engin afturljós. Þær voru teknar um helgi fyrir skömmu í sömu ferðinni í síðdegisumferðinni í Reykjavík. Umferðin var þá tiltölulega lítil. Það þurfti samt ekki að aka lengi til að verða var við ljóslausa bíl
Báðar þessar myndir sýna bíla í umferðinni með engin afturljós. Þær voru teknar um helgi fyrir skömmu í sömu ferðinni í síðdegisumferðinni í Reykjavík. Umferðin var þá tiltölulega lítil. Það þurfti samt ekki að aka lengi til að verða var við ljóslausa bíl
Mynd / HKr.
Fréttir 4. nóvember 2015

Lög um ljósabúnað ökutækja á Íslandi eru þverbrotin

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt lögum nr. 50 frá 30. mars 1987 er skylt að vera með ökuljós kveikt á ökutækjum í akstri, bæði að nóttu sem degi. Þessi lög eru nú þverbrotin á hverjum einasta degi með tilheyrandi slysahættu. Er það gert af ökumönnum vaxandi fjölda nýrra bíla sem fluttir eru til landsins með svokölluðum „dagljósabúnaði“ samkvæmt reglum ESB frá 2011.  
 
Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur bent á þennan galla þar sem flestar nýjar og nýlegar bifreiðir eru með þennan dagljósabúnað. Kviknar þá sjálfkrafa á hvítum ljósum að framan (dagljósabúnaður) þegar bifreið er ræst, en það eru þó ekki ökuljós. Ökumenn átta sig ekki allir á því að afturljósin eru mjög oft ótengd dagljósabúnaðinum í nýrri bílum. Því aka margir um í myrkri eða í þoku og dimmviðri með kveikt á „dagljósabúnaði“ en ekki lögboðnum ökuljósum og með slökkt afturljós sem augljóslega er stórháskalegt. 
 
Hlýtur það að vekja spurningar um lagalega stöðu ökumanna sem verða fyrir því að aka aftan á ljóslausan bíl í umferðinni.  
 
Þessar nýju reglur hafa valdið nokkrum ruglingi, ekki bara hér á landi heldur líka hjá hinum Norðurlandaþjóðunum þar sem fólk er vant því að það kvikni sjálfvirkt á lágu ljósunum og afturljósunum samtímis. 
 
Íslensk umferðarlög lítils metin með innleiðingu á reglugerðum ESB
 
Bændablaðið sendi fyrirspurn til Samgöngustofu um þennan búnað og hvort á döfinni væri að gera eitthvað í því að nýjar bifreiðir aki um göturnar með ljósabúnað sem stenst ekki íslensk lög. Ekki er hægt að segja að svar Samgöngustofu, sem ber ábyrgð á þessum málaflokki, sé sérlega afgerandi, en þar segir:
„Samgöngustofa hefur áður bent á að svokallaður dagljósabúnaður dugi ekki sem lögboðin ökuljós við allar aðstæður. Búnaðurinn kveikir sjálfkrafa á hvítum framljósum sem drífa skammt, en ekki á aðalljósum (háljósum eða lágljósum) og stöðuljósum (afturljósum) sem eru áskilin þegar skuggsýnt er eða skyggni lélegt. Samgöngustofa hefur hvatt ökumenn til að gæta þess að kveikt sé á viðeigandi ökuljósum í akstri. Í flestum nýjum bílum með dagljósabúnaði þarf ökumaður ekki að hafa áhyggjur af því að muna eftir að slökkva á dagljósunum þegar bifreið er yfirgefin, það gerist sjálfkrafa. Hann þarf aftur á móti að muna eftir því að kveikja sérstaklega á lögboðnum og nauðsynlegum ljósum strax og eitthvað er að skyggni þannig að hann sjái sjálfur vel fram fyrir bílinn (aðalljósin) og aðrir ökumenn sjái hann vel aftan frá (afturljósin).“
 
Ekki er annað að sjá á þessu svari Samgöngustofu en að hún hyggist ekki taka sérstaklega á þessum lögbrotum nema með máttlausum tilmælum til ökumanna. Varla er því annað hægt að skilja á svarinu en að Samgöngustofa meti reglur ESB um ljósabúnað bifreiða í raun æðri íslenskum lögum sem stofnunin viðurkennir þó í svari sínu að séu enn í gildi. Í ljósi þessa svars var aftur spurt hvort Samgöngustofa hygðist láta brot á íslenskum lögum viðgangast. Svar Samgöngustofu var eftirfarandi:
„Samgöngustofa vinnur eftir gildandi lögum og reglum um umferð og hvetur til þess að þeim sé fylgt í hvívetna, enda er öryggi í samgöngum markmið þeirra og starfsemi stofnunarinnar. 32. gr. umferðarlaga mælir fyrir um ljósanotkun. Það segir m.a. að við akstur vélknúins ökutækis skuli lögboðin ljós eða önnur viðurkennd ökuljós jafnan vera tendruð. Þegar skilyrði eru góð og dagsbirtu nýtur við eru lögin túlkuð með þeim hætti að dagljósabúnaður dugi til, en eins og fram kemur í fyrra  svari hefur Samgöngustofa hvatt ökumenn til að gæta þess að kveikja á viðeigandi ökuljósum í akstri. Það gerir þá kröfu til ökumanns að hann muni eftir því að kveikja sérstaklega á lögboðnum og nauðsynlegum ljósum um leið og skyggni dalar, bæði svo hann sjái vel fram fyrir bílinn sem og að aðrir ökumenn sjái bílinn hans tímanlega bæði að framan og aftan.“
 
Bíta höfuðið af skömminni
 
Það má eiginlega segja að þetta svar bíti höfuðið af skömminni þar sem Samgöngustofa tekur gilda notkun á ESB-dagsljósabúnaði,  „þegar skilyrði eru góð,“ þótt hann stangist á við íslensk lög. Í íslenskum lögum um ljósanotkun segir í 32. grein:
„Við akstur vélknúins ökutækis skulu lögboðin ljós eða önnur viðurkennd ökuljós jafnan vera tendruð. Við akstur ökutækis í rökkri, myrkri eða ljósaskiptum og þegar birta er vegna veðurs eða af öðrum ástæðum ófullnægjandi, hvort heldur er til að ökumaður sjái nægilega vel fram á veginn eða til að aðrir vegfarendur sjái ökutækið, skulu lögboðin ljós vera tendruð.“ − Síðar í 32. gr. laganna segir:
„Eigi má nota annan ljósabúnað eða glitmerki en boðið er eða heimilað í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.“
 
Mengunarsjónarmið metin meira en líf og limir vegfarenda
 
Samkvæmt Evrópureglunum er heimilt að selja bíla með sjálfvirkum „dagljósabúnaði“  sem kveikir einungis LED ljós á framhluta bílsins en engin afturljós. Í sumum tilvikum kveikir búnaðurinn þó sjálfvirkt á fullum ökuljósum og þá á afturljósum um leið, en það er alls ekki algilt.
 
Þessar reglur voru settar af ESB í því augnamiði að auka umferðaröryggi en þó fyrst og fremst með áherslu á orkusparnað. Þess vegna kveikir búnaðurinn ekki á fullum ökuljósum og sleppir því alveg að kveikja á afturljósum. Í sumum bifreiðum er búnaður sem skiptir yfir á ökuljós og kveikir afturljós þegar birtuskilyrði eru komin undir ákveðin mörk. Ekki er þó tryggt að slíkt gerist sem skapað getur hættu þegar ekið er í þoku, ryki eða við önnur erfið skilyrði. Sömuleiðis þegar ekið er á móti sól einmitt þegar mjög mikilvægt er að afturljósin séu virk fyrir þann sem á eftir kemur. 
 
FÍB hefur hvatt ökumenn til þess að kveikja á ljósunum þegar rökkva tekur og/eða þegar ekið er í þoku eða dimmviðri eða úti á rennvotum vegum. Allt of algengt sé að sjá í umferðinni, sérstaklega í myrkri og í dimmviðrum, bíla með afturljósin slökkt. Segir FÍB þetta reyndar alls ekkert einsdæmi á Íslandi, því að í Danmörku hafi FDM, systurfélag FÍB, hleypt af stað átaki til að hvetja ökumenn til að nota hefðbundin ökuljós við akstur. 
 
Samkvæmt heimildum Bænda­blaðsins mun Samgöngustofa hafa gert athugasemd við þessa lagasetningu en án árangurs. Var þessum búnaði svo gefinn íslenskur stimpill með reglugerðarbreytingu 2012 þrátt fyrir að það stangist á við lög um ljósanotkun. 
 
Bílar sem fluttir eru inn með þessum ljósabúnaði frá löndum Evrópusambandsins renna því athugasemdalaust í gegnum skoðun umferðaryfirvalda á Íslandi og skoðunarstöðvar. Lögregla virðist heldur engin afskipti hafa af þessum bifreiðum í umferðinni, þrátt fyrir að í ljósaskiptunum, myrkri, ryki eða slæmu skyggni af öðrum orsökum og eða snjókomu, séu þessar bifreiðir að skapa stórhættu í umferðinni. 
 
Áhyggjur tryggingafélaga
 
Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hefur haft áhyggjur af þessum málum, enda geta slys af völdum bifreiða með þessum nýja ljósabúnaði samkvæmt ESB-reglum valdið lagalegri óvissu. Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur VÍS í þjónustu- og markaðsmálum, segir að félagið hafi skoðað ljósabúnað ökutækja í nokkur skipti og komið niðurstöðum á framfæri. Bæði hafi verið gerðar kannanir þegar bjart er og svo þegar komið er myrkur. 
 
„Við höfum verið að benda á mikilvægi þess að ökumenn séu meðvitaðir um það hvernig ljósabúnaði bíls síns er háttað eftir að við tókum eftir fjölda nýrra bíla í umferðinni með takmarkaðan ljósabúnað á daginn,“ segir Sigrún.  
 
Hún segir að samkvæmt skilningi tryggingafélagsins megi nota dagljósabúnað í stað aðalljósa þegar hvorki er skuggsýnt né lélegt skyggni. 
 
„Í þó nokkrum umferðarslysum hefur bótaréttur ökumanns verið skertur þar sem ljósabúnaði hefur verið áfátt en ef nýjar leikreglur koma þá geta orðið breytingar þar á þ.e. þegar bjart er og skyggni gott.“  
Þann 18. september 2014 kom út könnun VÍS á ljósabúnaði ökutækja í Reykjavík. Hafði ástandið þá versnað talsvert frá árinu á undan. Í könnun sem gerð var í myrkri í janúar 2013 var hlutfallið 3% bæði að framan og aftan. Í september 2014 reyndust 7,5% þeirra annaðhvort eineygð eða alveg ljóslaus að framan og 7% að aftan. Fylgst var með 3.578 bílum sem áttu leið um Ártúnsbrekkuna að kvöldlagi þegar allir eiga að vera með aðalljósin kveikt.
 
Þar var einnig tekið fram að ljósabúnaður bíla sé mikið öryggistæki, sér í lagi þegar farið er að skyggja. Hér á landi sé skylt að vera með lögboðin ljós eða önnur viðurkennd ökuljós kveikt allan daginn. 
Í reglugerð kemur jafnframt fram að þegar skuggsýnt er orðið eða skyggni lélegt sé skylt að nota aðalljósin.
 
Nýir bílar eru margir hverjir með orkusparandi dagljósabúnað sem er ekki endilega í takt við umferðaröryggi. Aðalljósin eru þá ekki kveikt ef bjart er úti heldur eingöngu stöðuljós að framan og oft engin afturljós, segir í könnun VÍS. 

10 myndir:

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...