Losa meira af koltvísýringi en Bretlandseyjar
Mælingar benda til að skógareldarnir sem geisað hafa í Indónesíu undanfarnar vikur hafi losað meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en allir íbúar og starfsemi á Bretlandseyjum gera á heilu ári.
Umfang skógareldanna og losun koltvísýrings af þeirra völdum er slíkt að það er sagt munu hafa áhrif til hækkunar lofthita á Jörðinni og valda ótímabærum dauða yfir eitthundrað þúsund manna í Indónesíu og nágrannaríkjunum vegna loftmengunar. Auk þess sem eldarnir hafa nú þegar eyðilagt búsvæði ættbálka innfæddra og fjölda sjaldgæfra dýra í Indónesíu eins og órangúta og hlébarða.
Loftmyndir sýna að eldur hefur brotist út víða í skógum landsins og aðgerðir til að slökkva eldinn hafa haft lítil áhrif á útbreiðslu þeirra.
Sannað er að skógareldarnir voru kveiktir af ásettu ráði í kjölfar mikilla þurrka í landinu til að ryðja land til að rækta pálmaolíu og hraðvaxta plöntur til pappírsgerðar. Indónesía er komið efst á lista yfir lönd þar sem skógareyðing er mest í heiminum.