Málverk af Helgu afhent landbúnaðarráðuneyti
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Helga Gísladóttir hefur verið rangnefnd í sögubókum framan af og ekki fengið tilskilda athygli og virðingu fyrir afrek sín. Helga var ræktandi „Helgu“-kartaflnanna sem var þriðja kartöfluyrkið á Íslandi til að komast í úrvalsflokk.
Henni eru gerð þau skil sem þykja við hæfi fyrir ævistarf sitt á olíumálverki sem Hallveig Kristín Eiríksdóttir málaði af henni og nýtti sér ljósmynd af Helgu sem fyrirmynd. Myndin var afhent í landbúnaðarráðuneytinu við hátíðlega athöfn fyrr í vikunni og prýðir hún nú veggi ráðuneytisins. Afkomendur Helgu voru viðstaddir, sem og fulltrúar frá Kartöflusetrinu, fulltrúi ræktenda, lúðrasveitin „I’ve found a friend“, Halldór Eldjárn og listamennirnir Hallveig Kristín og Arnar Geir og fulltrúar landbúnaðarráðuneytis.
Gjörðin er hluti af ferðalagi sviðslistahópsins CGFC sem frumsýnir verkið „Kartöflur“ á nýju sviði á þriðju hæð Borgarleikhússins, smælki, í dag, fimmtudaginn 24. október. Verkið er byggt á rannsóknarferðalagi um kartöflur á Íslandi og fólkið sem varð á vegi hópsins í rannsókninni.
Sýningar verða einnig um helgina, á föstudag og laugardag, en síðan er ætlunin að byrja á ný næsta sumar og fara þá hringferð um landið.