Mannabreytingar hjá Líflandi
Arnar Þórisson tekur við sem forstjóri Líflands frá og með 1. júlí næstkomandi. Þórir Haraldsson, faðir Arnars, lætur af daglegum störfum eftir rúm tuttugu ár sem forstjóri.
Í fréttatilkynningu frá Líflandi kemur fram að Þórir muni halda áfram að sinna verkefnum fyrir félagið. Arnar er iðnaðar- og rekstrarverkfræðingur að mennt en hefur starfað hjá Líflandi síðan árið 2013. Áður starfaði hann sem framleiðslustjóri hjá Plastprenti.
Jafnframt hefur Lífland gengið frá ráðningum á tveimur nýjum stjórnendum. Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir er ráðin framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs og Halldór Berg Sigfússon mun taka við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs.
Þau Ingibjörg og Halldór munu bæði taka sæti í framkvæmdastjórn Líflands, en í henni sitja einnig þau Rannveig Hrólfsdóttir, mannauðs- og gæðastjóri, og Stefán Már Símonarson, framkvæmdastjóri Nesbúeggja.