Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Matís þróar kerfi til að greina uppruna nautakjöts
Fréttir 23. desember 2020

Matís þróar kerfi til að greina uppruna nautakjöts

Höfundur: smh

Sæmundur Sveinsson, fagstjóri hjá Matís og fyrrverandi rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, stýrir um þessar mundir evrópsku rannsóknaverkefni, sem snýst um að þróa kerfi með sameindaerfðafræði til að rekja uppruna nautakjöts.  Sæmundur segir verkefnið eiga rætur að rekja til kjötsvikamála sem skóku Evrópu á árinu 2013, þegar hrossakjöt var selt sem nautakjöt í miklu magni í evrópskum stórmörkuðum.

„Við erum að vinna með breskum kjötframleiðanda, sem vildi tryggja uppruna kjötsins. Hrossakjötsskandallinn hafði mikil áhrif á kjötframleiðendur í Evrópu. Það væri hægt að nota sömu tækni við að skera úr um hvort nautakjöt sé íslenskt eða erlent,“ segir Sæmundur um verkefnið.

Vörusvik mikið vandamál í sölu matvæla

Sæmundur segir að bæði neytendur og nautakjötsframleiðendur hafi vaknað við vondan draum þegar upp komst um svindlið. „Vörusvik í sölu matvæla eru gríðarlegt vandamál um allan heim, en slík viðskipti má flokka til glæpastarfsemi þar sem gróðavonin er mikil, en áhætta og viðurlög lítil fyrir þá einstaklinga sem iðjuna stunda. 

Þetta hneyksli olli mikilli vitundarvakningu meðal neytenda og framleiðenda nautakjöts í Evrópu. Málið opnaði jafnframt augu neytenda fyrir því hve flókin og viðkvæm virðiskeðja kjötframleiðslu er í raun og veru. Mörg fyrirtæki sem vinna í þessari verðmætu grein matvælaframleiðslu áttuðu sig einnig á þeirri nauðsyn að koma upp hraðvirkum, öflugum og hagkvæmum aðferðum til að sannreyna uppruna afurða á matvælamarkaði.“

Sýnum safnað við slátrun

Matís hefur unnið að þessu verkefni undanfarið ár, en það er alþjóðlegt rannsóknaverkefni, fjármagnað að fullu af evrópska samkeppnissjóðnum EIT Food. „Verkefnið nefnist BLINK, en markmið þess er að þróa nýtt rekjanleikakerfi fyrir nautakjöt. Aðferðin byggir á þeim miklu framförum sem orðið hafa undanfarinn áratug í erfðagreiningartækni og er sambærileg við aðferðir sem nýttar verða í erfðamengjaúrvali í íslenska kúakyninu sem stefnt er á að innleiða hér á landi á næstu árum. 

Hugmyndin bak við aðferðafræðina felst í því, að við slátrun nautgrips verði lífsýni, til dæmis hársýni eða vefjasýni, tekið af gripnum. Sýnið er síðan sent til rannsóknastofu þar sem erfðaefni er einangrað og þúsundir erfðamarka greind í hverjum einasta grip. Þessar erfðaupplýsingar eru í framhaldinu nýttar til að útbúa einstakt „strikamerki“ fyrir hvern einasta nautgrip sem fer í gegnum tiltekið sláturhús. Erfðafræðilegt strikamerki hefur þá kosti umfram hefðbundin strikamerki, sem allir kannast við úr matvörubúðinni, að það fylgir kjötinu hvert sem það fer og ekki er hægt að breyta því á neinn hátt. Fyrrgreindum erfðaupplýsingum, ásamt fylgigögnum, er að lokum komið fyrir í gagnagrunni. Ef grunur vaknar um að svik séu til staðar einhvers staðar í keðjunni frá nautgrip á fæti til kjötbita á diski, er hægt senda sýni af kjötinu í erfðagreiningu og fá úr því skorið hvort uppruni nautakjötsins sé sá sami og umbúðir matvælanna segja til um.

Þetta próf er talsvert frábrugðið hefðbundnum erfðafræðilegum tegundagreiningum. Til að afhjúpa kjötsvindlið í Evrópu var hefðbundinni tegundagreiningu beitt, erfðaefni eingangrað úr kjöti og það greint til tegunda, hvort þetta er hross eða naut.“

Íslenskt kjöt greint frá erlendu

„Aðferðafræðin, sem við vinnum að, væri auðveldlega hægt að beita til að sannreyna uppruna íslensks nautakjöts úr matvörubúðum eða veitingastöðum. Nýlegar rannsóknir hafa staðfest að hinn íslenski kúastofn er erfðafræðilega mjög ólíkur öðrum nautgripum. Með einföldu erðfaprófi væri því hægt að staðfesta uppruna íslensks nautakjöts.

Verkefninu lýkur í janúar á næsta ári. Að því loknu munu erlendir samstarfsaðilar Matís vekja athygli á aðferðafræðinni meðal evrópskra kjötframleiðenda. Vonir standa til að unnt verði að taka tæknina í almenna notkun í hinum vestræna heimi á næstu árum og að hana megi einnig nýta til rekjanleika á kjötafurðum annarra búfjártegunda,“ segir Sæmundur.

Sæmundur Sveinsson, fagstjóri hjá Matís.

Skylt efni: Matís | nautakjöt | Matvælasvindl

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...