Matvælastofnun skráir Íslenskt lambakjöt sem verndað afurðarheiti
Markaðsráð kindakjöts sótti um vernd fyrir afurðarheitið Íslenskt lambakjöt/Icelandic lamb í nóvember á síðast ári og hefur Matvælastofnun samþykkt slíka skráningu.
Sótt var um á grundvelli laga frá 2014 um vernd afurðaheita sem geta vísað til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu – og er í tilviki Markaðsráðs kindakjöts sótt um vernd sem vísar til uppruna afurðanna.
Tilgangur laganna er að vernda afurðarheiti til að stuðla að neytendavernd, auka virði afurða og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Íslensku lögin taka mið af reglugerð Evrópusambandsins um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli.
Sóst verður eftir sambærilegri vernd afurðaheitisins í Evrópusambandinu ásamt viðeigandi vottunarmerki.
Andmælum hafnað
Einar Thorlacius, lögfræðingur hjá Matvælastofnun, segir að ein andmæli hafi borist vegna umsóknarinnar, frá Ferskum kjötvörum. Matvælastofnun hafnaði þeim andmælum en hægt er að kæra þá ákvörðun til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins þegar skráningin hefur verið auglýst í B-deild Stjórnartíðanda, sem að sögn Einars verður á allra næstu dögum.
Vernd afurðaheita með vísun til uppruna
Í fjórðu grein laga um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu kemur eftirfarandi fram um skilyrði verndar sem vísar til uppruna.
„Heimilt er að veita afurðarheiti, sem vísar til uppruna, vernd á grundvelli skráningar samkvæmt lögum þessum ef öll eftirtalinna skilyrða eru uppfyllt:
a. ef afurðin er upprunnin á tilteknu svæði, stað eða landi,
b. ef rekja má gæði eða eiginleika afurðar, verulega eða að öllu leyti, til staðhátta, að meðtöldum náttúrulegum og mannlegum þáttum, og
c. ef framleiðsla, vinnsla og tilreiðsla afurðar fer fram á hinu skilgreinda landsvæði.