Meira tjón á síðasta ári af völdum álfta og gæsa
Úttekið tjón á ræktarlöndum bænda vegna ágangs álfta og gæsa var alls 309 hektarar á síðasta ári. Vegna þess greiddi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið alls um 4,8 milljónir króna. Ræktarland 43 bænda var bætt af þessum sökum, en af þessum 309 hekturum varð tjón á 245 hekturum kornakra.
Þetta er tæpum tveimur milljónum meira en greitt var fyrir árið 2020, þegar úttekið tjón vegna ágangs álfta og gæsa var á 213 hektara ræktunarspildna, 33 bænda.
Eingöngu greitt fyrir tjón á ræktunarspildum
Samkvæmt upplýsingum úr atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er eingöngu greitt út á tjón á ræktunarspildum, það er spildum sem sáð var í fyrir viðkomandi ár. Ekki er greitt út á eldri tún þótt tjón sé oft mikið á nýræktum á öðru og þriðja ári.
Tjón er eingöngu bætt ef tjónið er metið meira en 30 prósent af heildarstærð spildunnar. Þegar tjón er 31-70% er greitt 50 prósenta álag, en þegar tjón er meira er 75 prósenta álag greitt.