Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með hlutverk kúabóndans Ingu í kvikmyndinni Héraðinu. Sterk kvenpersóna sem ákveður að standa uppi í hárinu á kaupfélaginu sem hefur örlög héraðsins í hendi sér.
Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með hlutverk kúabóndans Ingu í kvikmyndinni Héraðinu. Sterk kvenpersóna sem ákveður að standa uppi í hárinu á kaupfélaginu sem hefur örlög héraðsins í hendi sér.
Mynd / Margrét Seema Takyar
Fréttir 16. ágúst 2019

Miðaldra kúabóndi skorar kaupfélagið á hólm

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Ný íslensk kvikmynd, Héraðið, eftir Grím Hákonarson er komin í bíóhús um allt land. Sögusvið myndarinnar er íslenska sveitin og uppreisn miðaldra kúabónda í Erpsfirði gegn kaupfélaginu. Inga, aðalsöguhetja myndarinnar, sem leikin er af Arndísi Hrönn Egilsdóttur, reynir að virkja bændur á sínum heimaslóðum en þeir eru tregir í taumi – kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni og margir eiga allt sitt undir því. Leikstjórinn viðurkennir fúslega að efniviðurinn í handritið er sóttur í Skagafjörðinn og vonast til að söguþráðurinn veki umtal og umræður.
 
Grímur Hákonarson leikstýrir myndinni en Grímar Jónsson hjá fyrirtækinu Netop Films sér um framleiðsluna. Fjöldi bænda og íbúa á Hvammstanga og á Blönduósi tóku þátt í gerð Héraðsins og sjást sumir þeirra á hvíta tjaldinu. Hugmyndin að Héraðinu kviknaði þegar frændi Gríms, sem búsettur var á Sauðárkróki, fór að segja honum sögur úr sveitarfélaginu.
 
„Það var eitthvað áhugavert við þetta svæði og sérstaklega Kaup­félag Skagfirðinga. Það er eitt af fáum kaupfélögum sem lifðu af eftir að SÍS hrundi. Ég ákvað því að drífa mig í Skagafjörðinn og dvelja þar í nokkra daga til að spjalla við heimafólk. Þarna er blómleg byggð, viss velmegun og atvinnuöryggi og fólk virðist hafa það nokkuð gott. Ef bændur lenda í vanda getur kaupfélagið hlaupið undir bagga en á móti kemur að eggin eru öll í sömu körfunni. Það er til dæmis ekki auðvelt fyrir bændur að gagnrýna kaupfélagið opinberlega. Í kjölfarið á þessu kom upp hugmynd hjá mér að gera kvikmynd um einstakling, sem er kona, sem byrjar að spyrja gagnrýninna spurninga í samfélaginu,“ segir Grímur. 
 
Grímur Hákonarson leikstjóri byrjaði ungur í kvikmyndagerð. Hann  ólst upp við umræður um landbúnaðarmál og var vinnumaður í sveit sem unglingur. Mynd / TB
 
Myndin er skáldskapur og gerist í Erpsfirði sem er tilbúið sögusvið. „Hugmyndin kom úr tveimur áttum. Annars vegar þessi löngun mín að gera mynd um samfélag þar sem allir eru háðir einu fyrirtæki og svo hins vegar að fjalla um nútímakonuna í sveitinni. Konu sem gengur í öll störf og gerir sig gildandi í samfélaginu,“ segir Grímur.
 
Ólst upp við umræður um landbúnaðarmál
 
Leikstjórinn á sjálfur tengingar í sveitina og ólst upp við umræður um landbúnaðarmál. „Ég á bak­grunn í sveitinni að vissu leyti. Foreldrar mínir eru báðir aldir upp í sveit og pabbi minn, Hákon Sigur­grímsson, var lengi tengdur land­búnaðarpólitíkinni. Hann starfaði hjá Stéttarsambandi bænda og síðar í landbúnaðarráðuneytinu. Svo er ég kominn af mikilli Framsóknar­fjölskyldu þannig að maður hefur vissa innsýn inn í sveitalífið,“ segir Grímur og hlær en segist í fullri alvöru alltaf hafa haft áhuga á pólitíkinni í kringum dreifbýlið. 
 
Bændur sem berjast á móti kerfinu
 
Grímur leikstýrði kvikmyndinni Hrútum þar sem efniviðurinn var sóttur í sveitina. „Ég hef lofað sjálfum mér að segja skilið við sveitina eftir þessa mynd, þetta er komið gott! Ég lít á Héraðið sem endann á þríleik, fyrsta myndin var Hvellur, sem fjallaði um Laxárdeiluna, svo Hrútar og þá Héraðið. Í öllum þessum myndum er fjallað um bændauppreisnir eða bændur sem standa uppi í hárinu á kerfinu. Í Hrútum voru bændur að berjast gegn dýralæknum sem ætluðu að taka af þeim kindurnar, í Hvelli er barist á móti virkjun og í Héraðinu er kaupfélagið tekið fyrir. Ég hef ef til vill, ómeðvitað, tekið að mér að vera kvikmyndagerðarmaður landsbyggðarinnar! Ég gerði síðast myndina Litla Moskva í Neskaupstað. Mögulega hef ég eitthvert landsbyggðarinnsæi en ég hef einfaldlega gaman af því að vera úti á landi,“ segir Grímur. 
 
Grímur á setti. Mynd / Margrét Seema Takyar
 
Varstu sendur í sveit þegar þú varst strákur? 
„Já, sem krakki var ég í sveit og síðar byrjaði maður að vinna fyrir kaupi. Ég var hjá afa mínum Stefáni Jasonarsyni í Vorsabæ í Flóa en mamma mín, Unnur Stefánsdóttir, var þaðan. En það var ekki nóg því að mamma sendi mig á annan bæ, Vatnsleysu í Biskupstungum, til þess að gera mig enn þá sjálfstæðari. Það fólk var ekkert skylt mér og tilgangurinn sjálfsagt að reyna að herða mig upp þar sem maður þekkti engan og varð að stóla á sjálfan sig.“ 
 
Sveimhugi sem ákvað snemma að verða kvikmyndagerðarmaður
 
„Ég var sosum aldrei góður starfsmaður eða bændaefni. Ég var sveimhugi, bakkaði traktornum aftan á vegg og náði aldrei almennilega að setja mjaltatæki á spena,“ segir Grímur og neitar því að hafa dreymt búskapardrauma. „Það var líka þetta verklega, ég gat verið duglegur en flestir strákar á mínum aldri voru betri á vélarnar en ég. Ég ákvað 16 ára gamall að verða kvikmyndagerðarmaður og byrjaði mjög snemma í þeirri grein.“ 
 
Eftir grunnskóla lá leið Gríms í Menntaskólann við Hamrahlíð og síðan skellti hann sér í heimspeki við Háskóla Íslands. „Þar entist ég í eitt ár, háskólaumhverfið hentaði mér ekki þannig að ég leitaði í kvikmyndagerðina. Ég gerði tvær heimildamyndir hér á Íslandi sem hétu „Varði fer á vertíð“ og „Varði goes Europe“ sem gengu alveg ágætlega. Eftir það fór ég í kvikmyndaskóla í Prag og þá tók við að gera leiknar myndir.“
 
Það krefst útsjónarsemi að taka upp kvikmynd inni í fjósi. Mynd / Margrét Seema Takyar
 
Hvernig verður kvikmynd til?
 
Það er langt og strangt ferli að gera bíómynd í fullri lengd. Grímur segir að hjá sér taki mestan tíma að finna hugmynd sem maður brennur fyrir. Um leið og hún er komin taka handritaskrifin við. Þau taka kannski eitt til tvö ár og þá er fjármögnunin eftir og sjálf framleiðslan. „Maður gerir náttúrlega ekki kvikmynd nema hafa nægt fjármagn á bakvið sig. Við fengum styrki frá ýmsum kvikmyndasjóðum til að gera Héraðið,“ segir Grímur en helmingurinn kom frá Íslandi og hinn helmingurinn að utan. Hann segir að vel hafi gengið að fjármagna Héraðið eftir velgengni Hrúta og þeim hafi alls staðar verið vel tekið. 
 
Tökur í fjósinu á Erpsstöðum. Mynd / Margrét Seema Takyar
 
Erpsstaðir í Dölum urðu fyrir valinu
 
Eftir að framleiðsluféð var tryggt tók við að velja leikara, ráða starfsfólk og finna tökustaði. „Við ákváðum að taka myndina upp á Erpsstöðum í Dölum. Inga, aðalsöguhetja myndarinnar, rekur róbótafjós og hún vill hafa hlutina í lagi og snyrtilegt í kringum sig. Á Erpsstöðum var allt til alls. Huggulegt bú og heimilislegt. Ábúendur voru afar þægilegir að eiga við sem er ekki sjálfgefið. Dal­irnir eru fallegir og stutt að fara til Reykjavíkur sem skiptir máli upp á fjárhagshliðina,“ segir Grímur. 
 
Bækistöðvar kaupfélagsins á Hvammstanga
 
Þónokkrar senur eru teknar upp á Hvammstanga. „Samfélagið í Héraðinu er minna en t.d. í Skagafirði og þess vegna völdum við Hvammstanga sem bæki­stöðvar kaupfélagsins í myndinni. Kaupfélagshúsið þar er líka flott og sjarmi yfir því. Íslendingum er raunar gjarnt að inn­rétta allt upp á nýtt og það var búið að skemma gamla innvolsið í kaup­félagshúsinu á Hvammstanga. Þar er allt í nýtísku stíl þannig að við færðum innitökurnar á gömlu kaupfélagsskrifstofurnar á Blöndu­ósi. Þær hafa lítið breyst frá því 1970!“
 
Sigurður Sigurjónsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson leika hæstráðendur hjá Kaupfélagi Erpsfirðinga. Mynd / Brynjar Snær
 
Fólk úr heimabyggð leikur í myndinni
 
Það eru heilmikil samskipti við heimamenn þegar kvikmyndir eru teknar upp úti á landsbyggðinni. Grímur segir að það samstarf hafi verið svipað og þegar Hrútar voru teknir upp. 
 
„Í Bárðardalnum virkjuðum við allt samfélagið, flestir á svæðinu höfðu einhvers konar aðkomu að myndinni, voru að leika eða þjónusta okkur, lána tæki eða hluti. Ég er mikið fyrir það að nota ófaglærða leikara í bland við faglærða og það á við í Héraðinu eins og í Hrútum. Við völdum fólk úr heimabyggðinni sem leikur í myndinni. Á Erpsstöðum tókum við upp í íbúðarhúsinu hjá Þorgrími og Helgu. Þar breyttum við heilmiklu og hjónin fluttu út og gistu á næsta bæ um tveggja mánaða skeið. Það var alveg magnað og í heildina gekk samstarfið við ábúendur mjög vel og engir árekstrar komu upp. 
 
Það má segja að 50% af mynd­inni gerist á Erpsstöðum og hinn helmingurinn á öðrum bæjum í kring eða á þessu svæði. Allt er þetta skáldað samfélag sem heitir Erpsfjörður í myndinni. Ég veit að margir Íslendingar pirra sig á því þegar persónur í kvikmyndum eru t.d. að keyra á Selfossi og eru allt í einu komnir í Vík í Mýrdal. Við kvikmyndagerðarmenn erum alltaf að hugsa um það sem kemur best út í mynd og þá skiptir landafræðin minna máli.“
 
Spáð í spilin á kaupfélagsskrifstofunni. Mynd / Brynjar Snær
 
Sveitin höfðar til áhorfenda
 
Hrútar fengu góðar viðtökur og óhætt er að segja að velgengni þeirrar myndar hafi vakið athygli á ýmsum þáttum í starfi bænda. Búskapur og örlög skepna höfða líka sterkt til áhorfenda. Grímur segir þó að það eigi eftir að koma í ljós hvernig Héraðið nái til fólks.
 
„Ég geri ráð fyrir því að myndin muni ganga ágætlega en maður veit það aldrei fyrirfram. Hrútar höfðu ákveðna sérstöðu og það var engin önnur eins mynd í gangi á þeim tíma. Samband bræðranna við sauðkindina var sérstakt og svo var þetta líka fjölskyldusaga, þ.e. um samskipti þeirra tveggja. Héraðið fjallar meira um samfélagið og þar eru eflaust ýmis atriði sem höfða til margra.“
 
Mörg álitaefni í nútímabúskap
 
Það er komið inn á það í myndinni hvernig rekstur íslenskra búa hefur þróast síðustu ár. Skuldsetning er töluverð, rekstrareiningarnar eru stórar og fjárbinding mikil. 
 
„Það lentu margir illa í því í hruninu, t.d. bændur sem höfðu fjárfest í dýrum fjósum. Héraðið byggist á þessari sögu. Hjónin í myndinni, Inga og Reynir, eru búin að fjárfesta í rándýru fjósi og lánin hækka í hruninu. Þá kemur Kaupfélagið inn í myndina og vill að þau eigi viðskipti við það o.s.frv. Persónulegt áfall aðalsöguhetjunnar ýtir henni í það að gera uppreisn sem myndin gengur út á. Baráttan er hennar leið til að komast yfir sorgina ef svo má segja,“ segir Grímur. 
 
Hvernig heldur þú að áhorfendur taki þeirri gagnrýni sem myndin beinir að kaupfélaginu? 
„Það verður spennandi að vita og ég ætla bara að leyfa fólki að draga sínar ályktanir af myndinni. Ég vil endilega koma því á framfæri að myndin er ekki með einhvern einhliða áróður. Kaupfélagsstjórinn í myndinni kemur fram með fullgild sjónarmið sem örugglega margir eru sammála. Ég geri þó ráð fyrir að myndin muni vekja þónokkra athygli. Það hefur ekki verið gerð pólitísk mynd í þessum dúr á Íslandi síðan Hafið eða Óðal feðranna voru gerðar. Kona fer í stríð er pólitísk mynd en á allt annan hátt. Ég vona að myndin veki umtal og umræður og virki alla bloggara landsins!“
 
Kaupfélagsstjórinn les Morgunblaðið. Mynd / Brynjar Snær
 
Héraðið er komið í sýningar 
 
Héraðið var frumsýnd 13. ágúst í Háskólabíói í Reykjavík og í kjölfarið verður myndin sýnd um allt land. Forsýningar voru haldnar fyrir norðan.
 
„Hún verður sýnd á Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Vestmannaeyjum og á Selfossi. Við erum svolítið bundin af því að sýna í bíóhúsum með ákveðinn búnað en reynum að sýna eins víða og við getum. Hrútar gengu t.d. mjög vel á Selfossi þar sem 1.300 manns sáu myndina,“ segir Grímur.
 
Sem fyrr segir fer Arndís Hrönn Egilsdóttir með hlutverk Ingu í myndinni. Hún hefur meðal annars leikið í sjónvarpsþáttunum Pressu og Föngum og í kvikmyndinni Þröstum. Arndís var tilnefnd til Edduverðlaunanna fyrir hlutverkið í þeirri síðastnefndu. Með önnur hlutverk í myndinni fara meðal annarra þau Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sigurður Sigurjónsson, Hinrik Ólafsson, Hannes Óli Ágústsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir.
 
Inga, aðalsöguhetja myndarinnar, er leikin af Arndísi Hrönn Egilsdóttur.
 
Íslenska sveitin í burðarhlutverki
 
Vinsælar myndir hafa verið gerðar undanfarin ár þar sem íslenskar sveitir eru í burðarhlutverkum eins og Hross í oss og Hrútar. 
 
„Það er talað um lands­byggða­rmyndir eins og myndirnar hans Benedikts Erlingssonar og mínar. Annars kemur þetta í bylgjum. Eitt árið eru undirheimar Reykjavíkur í brennidepli og annað árið eru landsbyggðarmyndir. Það sem skiptir mestu máli er að myndin sé góð – efnistökin eða hvar hún gerist er ekki aðalmálið. Sagan þarf bara að virka!“ segir Grímur Hákonarson, leikstjóri og handrits­höfundur Héraðsins.
 
 
 

Skylt efni: Héraðið

Gripir finnast með ARR-breytileikann í Mýrdal
Fréttir 22. janúar 2025

Gripir finnast með ARR-breytileikann í Mýrdal

Staðfest er að á bænum Skammadal í Mýrdal hafa fundist þrjár kindur með arfgerða...

Háskólasamstæða og hátæknilandbúnaður
Fréttir 22. janúar 2025

Háskólasamstæða og hátæknilandbúnaður

Vonir standa til þess að ný háskólasamstæða Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólans á ...

Einn úr bændastétt kjörinn til þingsetu
Fréttir 21. janúar 2025

Einn úr bændastétt kjörinn til þingsetu

Einungis einn bóndi var kjörinn til setu á Alþingi Íslendinga í nýliðnum kosning...

Nýr bæjarstjóri Múlaþings
Fréttir 21. janúar 2025

Nýr bæjarstjóri Múlaþings

Bæjarstjóraskipti eru að verða í sveitarfélaginu Múlaþingi.

Kúrsinn tekinn til framtíðar
Fréttir 20. janúar 2025

Kúrsinn tekinn til framtíðar

Þingeyjarsveit hefur samþykkt nýja heildarstefnu fyrir sveitarfélagið fram til á...

Skógareldar vaxandi vá
Fréttir 20. janúar 2025

Skógareldar vaxandi vá

Norðurlöndin skoða nú í sameiningu vaxandi hættu á víðtækum skógareldum.

Auka við atvinnuhúsnæði
Fréttir 17. janúar 2025

Auka við atvinnuhúsnæði

Sveitarfélagið Dalabyggð og Byggðastofnun hafa gert með sér viljayfirlýsingu um ...

Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur
Fréttir 17. janúar 2025

Stóra viðfangsefnið að styðja við unga bændur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, segir br...