Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Herdís Magna Gunnarsdóttir er nýr stjórnarformaður Íslenskt staðfest.
Herdís Magna Gunnarsdóttir er nýr stjórnarformaður Íslenskt staðfest.
Mynd / HKr.
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

BÍ eiga og reka merkið sem stofnað var til á árinu 2022 og nær yfir íslenskar matvörur og blóm.

Herdís segir að sér og mörgum öðrum hafi að undanförnu verið tíðrætt um mikilvægi og sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu. „Við búum að dýrmætum kostum í innlendri matvælaframleiðslu sem ekki má taka sem gefnum. Þar má nefna auðveldan aðgang að hreinu neysluvatni, jarðvegsgæði og heilbrigði bústofna. Notkun varnarefna í landbúnaði er í algjöru lágmarki og sömuleiðis erum við stolt af því að Ísland er eitt þeirra landa í heiminum sem notar hvað minnst af sýklalyfjum í landbúnaði.

Þetta er okkur mikilvægt og flest viljum við halda uppi háum gæðastuðli á okkar vörum.“

Fánalitirnir engin trygging

Hún segir að í umræðu um þverrandi tollvernd hafi BÍ lengi bent á að íslenskir framleiðendur búi ekki við sanngjarna samkeppnisstöðu þar sem innfluttar vörur komi margar frá löndum þar sem bæði framleiðslukröfur og launakostnaður séu lægri.

„Við viljum síður gefa eftir í gæðakröfum íslenskrar framleiðslu til að mæta þessari samkeppni en verðum að tryggja að fólkið sem starfar við framleiðsluna, alla virðiskeðjuna, fái sambærileg laun og aðrar starfsstéttir í landinu. Ég er stolt af íslenskri búvöru, þeim gæðastaðli sem frumframleiðslan er á og vöruþróun út á markað hefur tekið miklum framförum á síðustu árum svo eftir hefur verið tekið. Þó eigum við enn inni mikil tækifæri til að ná lengra á þeim velli ásamt frekari nýsköpun og nýtingu hliðarafurða.

Ef við viljum standast samkeppni án þess að gefa eftir gæði í framleiðslunni er grundvallaratriði að neytendur eigi þess auðveldlega kost að velja íslenskt og að íslenskri framleiðslu sé gert hátt undir höfði. Því miður hefur það sýnt sig að íslensku fánalitirnir eru ekki alltaf trygging fyrir að varan sé íslensk og merkingar geta oft verið afar villandi fyrir neytendur. Það eru ekki síst neytendur sem hafa kallað eftir betri merkingum og merkið Íslenskt staðfest er svar við þeirri eftirspurn,“ segir Herdís.

Virðisauki fyrir alla framleiðslukeðjuna

Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og þáverandi formaður Bændasamtaka Íslands undirrituðu í maí 2021 samning um gerð íslensks búvörumerkis. Herdís segir að merkið hafi verið í vöggu Bændasamtakanna í nokkur ár en hún sé á þeirri skoðun að fleiri þurfi nú að koma að merkinu.

„Meginmarkmið merkisins er að tryggja skýrari merkingar fyrir neytendur en um leið á það að vera virðisaukandi fyrir framleiðendur innlendra matvara, alla framleiðslukeðjuna. Við höfum fyrir- mynd að þessu erlendis þar sem til dæmis eignarhaldi Svenskmårkning er þrískipt milli bænda, afurðastöðva og svo samtökum verslana. Það er sameiginlegur hagur allra hlutaðila að standa saman að því að gera íslenskri matvælaframleiðslu hærra undir höfði og tala hana upp.

Markmiðið er einnig að auka meðvitund og áhuga neytenda á að versla íslenska vöru. Í framhaldi af því að koma Íslenskt staðfest á vörur í smávöruverslun verður mikilvægt að vinna að bættum merkingum á veitingastöðum og mötuneytum.

Þar er erfiðara fyrir neytendur að gera sér grein fyrir uppruna vörunnar og við vitum að stór hluti innfluttra matvæla fer þar í gegn á degi hverjum. Merkið gæti þannig til dæmis nýst í að gera þeim veitingahúsum hærra undir höfði sem gera út á að notast við íslenskt hráefni.“

Samtalið við afurðastöðvar

Merkið og staðall þess er að fyrirmynd merkja sem eru vel þekkt á Norðurlöndunum, að sögn Herdísar. „Það er mikilvægt að við eigum gott samtal við fyrirtækin til að koma merkinu á vörur, frá þeim höfum við fengið praktískar ábendingar um staðal merkisins og önnur atriði er snúa að því að taka merkið upp. Þessi atriði er sjálfsagt að taka til skoðunar til að auðvelda framleiðendum að taka upp merkið.

Það er þó númer eitt, tvö og þrjú að tryggja trúverðugleika merkisins og það gerum við með skýrum staðli og úttekt af hendi þriðja aðila.

Framleiðendur greiða gjald fyrir að taka upp merkið og einhver hafa gagnrýnt gjaldið en það skal ítrekað að þetta gjald er einungis hugsað til þess að standa undir rekstrarkostnaði. Gjaldinu verður reynt að halda í lágmarki.

Íslenskt staðfest er upprunamerki fyrir íslenska matvöru og blóm. Það er svar við kalli neytenda auk þess að vera sameiginlegur starfsgrundvöllur fyrir alla hagaðila virðiskeðjunnar til að lyfta upp gæðum og sérstöðu innlendrar framleiðslu með aukinni fræðslu og tengingu við neytendur.“

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...