Minnsta framleiðsla í ríflega sextíu ár
Alþjóðlegu vínsamtökin International Organisation of Vine and Wine (OIV) segja í skýrslu að útlit sé fyrir að árið 2023 hafi vínframleiðsla í heiminum verið sú minnsta í rúm 60 ár.
Fyrir vínræktendur einkenndist árið 2023 af erfiðum áskorunum í formi sögulega lágs framleiðslu magns og hækkandi verðs en árið þótti einkennast af áhrifum alþjóðlegs verðbólguþrýstings. Vínframleiðsla ársins á heimsvísu nam um 237 milljónum hektólítra og er það 10% lækkun frá fyrra ári og minnsta ársframleiðsla síðan árið 1961, eða í 62 ár.
Yfirborð víngarða heimsins hélt áfram að dragast saman, um 0,5% frá 2022 í 7,2 milljónir hektara í fyrra. Öfgar í veðurfari höfðu margvísleg alvarleg áhrif á víngarða um heim allan, ekki síst í formi sveppasjúkdóma, myglu og þurrka.
Frakkland enn stærsti framleiðandinn
OIV segja uppskeru hafa dregist saman á suðurhveli jarðar og í nokkrum af helstu vínframleiðsluríkjunum vegna erfiðra veðurfarsskilyrða. Safnað er saman upplýsingum um 29 lönd sem standa undir 94% af heimsframleiðslu.
Framleiðslumagn í Evrópusambandinu hafi minnkað og varð t.d. umtalsverður samdráttur á Ítalíu, Spáni og Grikklandi vegna öfga í veðurfari sem leiddu til myglu og þurrka. Frakkland hafi þó verið stærsti vínframleiðandinn í fyrra og magnið aðeins yfir fimm ára meðaltali. Þýskaland, Portúgal og Rúmenía héldu einnig sjó í framleiðslu sinni. Þá séu Bandaríkin yfir meðaltali síðustu ára og hafi heldur bætt við sig í framleiðslu frá fyrra ári.
Mikill samdráttur á suðurhveli
Á suðurhveli gegnir öðru máli þar sem framleiðslumagn víns árið 2023 er áætlað langt undir því sem var 2022. Ástralía, Argentína, Chile, Suður-Afríka og Brasilía urðu öll fyrir miklum áhrifum af erfiðu veðri á vaxtarskeiði vínþrúgna og olli það á bilinu 10–30% samdrætti milli ára. Undantekningin er Nýja-Sjáland sem var fyrir fimm ára meðaltali.