Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Mótmæla frekari uppkaupum á hlunnindajörðum
Fréttir 5. febrúar 2021

Mótmæla frekari uppkaupum á hlunnindajörðum

Höfundur: ehg / MÞÞ

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskaði eftir umsögn Húnaþings vestra um kaup Flaums, sem Andri Teitsson er í forsvari fyrir, vegna fyrirhugaðra kaupa á jörðinni Núpsdalstungu. Fyrir á félagið um sex þúsund hektara lands en samkvæmt jarðarlögum þarf að fá álit sveitarfélaga ef eign kaupanda fer yfir ákveðinn fjölda jarða og hektara. 

Stjórn Félags sauðfjárbænda í sýslunni, en á annað hundrað félagsmenn eru í félaginu, hefur óskað eftir því að ráðherra hafni kaupunum. Ólafur Benediktsson, formaður Félags sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu, segir jarðakaup hafa brunnið á fólki í samfélaginu um alllangt skeið og með breytingu á jarðalögum síðastliðið sumar hafi opnast gluggi fyrir félög og íbúa á svæðinu til að mótmæla slíkum jarðakaupum.

„Við tókum undir þessa áskorun með sveitarfélaginu í fyrsta sinn því það veldur okkur áhyggjum að jarðirnar skuli ekki vera byggðar. Það er ekki búseta á jörðum hér í kring og við sjáum dæmi þessa allt í kringum okkur að þar sem eru hlunnindi að laxveiðiám, þá falast menn eftir þeim. Þetta eru aðilar sem gefa afskaplega lítið út í samfélagið. Til að venjulegt samfélag virki þarf ákveðið marga íbúa. Við erum ein af röddunum sem vonandi getum haft áhrif og nýtum okkur það,“ segir Ólafur og bætir við:

„Mín skoðun er sú að laxveiði-hlunnindin séu góð eins langt og það nær en þau geta snúist upp í andhverfu sína. Jarðalögunum var breytt í sumar og meiri kvaðir settar á kaupendur. Ef enginn segir neitt þegar fyrsta jörð fer í gegn þá er ákveðið fordæmi komið og það ásamt fleira ýtti á okkur. Þetta brennur á fólki hér í samfélaginu og hefur gert lengi og það er ánægjulegt að við getum látið okkar raddir heyrast.“ /ehg 

Mikilvægt að tryggja nýtingu á bújörðum

Sveitarstjórn Húnaþings vestra áréttar í bókun frá fundi sínum fyrr í þessum mánuði að það sé vilji sveitarstjórnar að jarðir í héraði séu seldar til búsetu. „Mikilvægt er að tryggja nýtingu á bújörðum og búsetu enda er slík nýting um allt sveitarfélagið lífæð samfélagsins“, segir í bókun sveitarstjórnar. Tilefni bókunarinnar er umsögn sveitarfélagsins vegna kaupa Flaums ehf. á jörðinni Núpsdalstungu.

Sveitarstjórn leggur áherslu á að eign jarðar fylgja ekki aðeins réttindi til nýtingar hlunninda viðkomandi jarðar heldur einnig skyldur við jörðina og samfélagið allt. Það sé eindreginn vilji sveitarstjórnar að allar jarðir í sveitarfélaginu verði nýttar með það að markmiði að styðja við fjölbreytta atvinnusköpun, eflingu byggðar og styrkingu búsetu. Þar af leiðandi er mikilvægt að ábúð sé á sem flestum jörðum. Sveitarstjórn telur ekki æskilegt að margar jarðir safnist á fárra hendur.

Þurfti að óska eftir gögnum

Jafnframt bendir sveitarstjórn á að engin gögn hafi fylgt beiðni um umsögn frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu varðandi málið í upphafi og það því verið mjög óljóst þegar það barst sveitarfélaginu. Þurfti sveitarstjórn að kalla sérstaklega eftir gögnum. „Eðlilegast hefði verið að viðkomandi fylgigögn hefðu fylgt með beiðni um umsögn strax í upphafi og er mælst til að það verði gert í framtíðinni“, segir í bókun. 

Of stuttur umsagnarfrestur

Einnig er bent á að sveitarstjórn telji eðlilegt að ráðuneytið móti sér hið fyrsta verklagsreglur varðandi framkvæmd laga nr. 81/2004 með síðari breytingum, frekar en að leggja þá ábyrgð alfarið á hendur sveitarfélaga, enda virðist það afar misjafnt eftir málaflokkum hverju sveitarfélögum er treyst fyrir. Þá kann að vera eðlilegt að ráðuneytið vinni stutta umsögn um málið með hliðsjón af þeim atriðum sem tíunduð eru í 10. gr. a í jarðalögum áður en það er sent sveitarstjórn til umsagnar. 

Að lokun bendir Sveitarstjórn Húnaþings vestra á að sveitarfélaginu hafi verið veittur of stuttur frestur til að gefa umsögn. /MÞÞ

Skylt efni: Jarðakaup

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...