Náttúrufræðistofnun stígur fyrsta Græna skrefið
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur staðist úttekt á fyrsta Græna skrefinu í ríkisrekstri og hlaut í dag viðurkenningu þess efnis. Græn skref í ríkisrekstri snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins á markvissan hátt.
Vorið 2014 voru Græn skref Reykjavíkurborgar aðlöguð ríkisrekstri og tóku 12 stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þátt í að þróa verkefnið, þar á meðal Náttúrufræðistofnun Íslands. Markmið verkefnisins eru meðal annars að starfsemi ríkisins verði umhverfisvænni, dregið verði úr rekstrarkostnaði og að vellíðan og starfsumhverfi starfsmanna aukist. Náttúrufræðistofnun Íslands er meðal fyrstu stofnana ríkisins í að hefja aðlögun starfseminnar að þessum markmiðum og stefnir að ljúka innleiðingu á árinu. Þeir þættir sem horft er til við innleiðingu Grænna skrefa eru sex talsins:
• innkaup
• miðlun og stjórnun
• fundir og viðburði
• flokkun og minni sóun
• rafmagn og húshitun
• samgöngur
Skrefin eru innleidd í fjórum áföngum, en fimmta og síðasta skrefið sýnir helstu aðgerðir sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi.