Nemendur hafa nú aðgang að „gervigreindum” einkakennara
Háskólinn á Bifröst hefur samið við íslenska sprotafyrirtækið Atlas Primer ehf. um að bjóða nemendum aðgang að „gervigreindum“ einkakennara sem skilur talað mál og getur rætt við nemendur um námsefnið.
Þó það kunni að hljóma ótrúlega þá getur Atlas Primer flutt fyrirlestra, svarað spurningum frá nemendum og prófað þá í kennsluefninu. Hann skilur líka talað mál og fylgir nemendum hvert sem þeir fara og getur breytt hvaða texta sem er í tal og aukið aðgengi að námsefni fyrir nemendur með lesblindu. Þá geta nemendur rætt við Atlas Primer um námsefnið, bæði á íslensku og ensku.
„Með þessu er stigið stórt skref í nútímavæðingu menntakerfisins sem gefur nemendum meira frelsi og endurspeglar markmið Háskólans á Bifröst að vera í fararbroddi í fjarnámi. Kennarar og nemendur hafa brugðist vel við þessari nýju lausn og telja að hér sé um að ræða spennandi nýjung í námi sem leyfir nemendum að læra hvar sem er, án þess að sitja fyrir framan skjáinn öllum stundum. Prófanir á lausninni eru nú þegar hafnar og verður hún gerð aðgengileg nemendum í völdum áföngum í haust,“ segir Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, kennslustjóri á Bifröst.