Ný bók komin út um þjálfun fjárhunda
Ný bók um fjárhunda, þjálfun þeirra og uppeldi er komin út. Höfundurinn er Elísabet Gunnarsdóttir, en hún er menntaður hundaþjálfari og hefur haldið fjölmörg námskeið.
Bókin heitir Border Collie fjárhundar – leiðarvísir um þjálfun og uppeldi. Í formála bókarinnar kemur fram að framboð á íslensku fræðsluefni um Border Collie fjárhunda og tamningu þeirra hafi ekki aukist í takt við aukna útbreiðslu tegundarinnar. „Margir þeir sem eiga slíka hunda gera sér ekki endilega grein fyrir hvaða væntingar þeir geta haft til hundsins eða hvaða vinna liggur að baki tömdum hundi. Allt of algengt er að bændur fari með hund í smalamennskur án þess að nokkur markviss tamning hafi átt sér stað og skammi svo hundinn þegar hann gegnir ekki. Það er því miður hlutskipti margra hunda sem vel gætu orðið ágætis fjárhundar, að sinna mjög takmörkuðum verkefnum eða vera jafnvel lokaðir inni þegar á að fást við fé. Útgáfa þessarar bókar mun vonandi stuðla að jákvæðri breytingu þar á,“ segir í formálanum.
Bókin er til sölu í móttöku í Ásgarði á Hvanneyri og kostar 3.500 kr. Hægt er að panta bókina í síma 433-5000 eða á netfanginu dagny@lbhi.is.