Ný Hrútaskrá og hrútafundir
Von er á prentaðri útgáfu Hrútaskrárinnar mánudaginn 18. nóvember, þar sem 54 sæðingahrútar verða kynntir sauðfjárbændum.
Að sögn Eyþórs Einarssonar, ráðunautar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, eru þetta sex fleiri hrútar en í fyrra, þar sem lambhrútar eru 36 og því í meirihluta.
Venju samkvæmt verður útgáfu hennar fylgt eftir með fundum sem haldnir eru í samstarfi við Búnaðarsamböndin víðs vegar um landið.
Eyþór segir að í Hrútaskránni séu kynntir 54 hrútar sem skiptist á sæðingastöðvarnar tvær, Sauðfjársæðingastöð Suðurlands í Þorleifskoti og Sauðfjársæðingastöð Vesturlands í Borgarnesi. „Aldrei hafa lambhrútar verið jafnmargir í skránni en nú og ástæðan er að við innleiðingu verndandi arfgerða er lögð áhersla á að stytta ættliðabilið. Öllum hrútum sem báru ARR og T137 arfgerðir og voru á stöðvunum á síðasta ári hefur nú verið skipt út fyrir nýja hrúta.“
„Á síðasta ári var góð aukning í notkun sæðinga miðað við árin á undan, sem væntanlega hefur bæði stafað af áhuga bænda fyrir notkun á hrútakostinum og áhuga fyrir innleiðingu verndandi arfgerða,“ heldur Eyþór áfram.
„Þá greiddi matvælaráðuneytið niður sæðingarkostnað ef sætt var með verndandi eða mögulega verndandi hrútum. Gert er ráð fyrir að bændur verði einnig studdir til sæðinga í ár á hrútum sem bera þessar arfgerðir. Þá var það mjög ánægjulegt að árangur sæðinga tók einnig framförum á síðasta ári en meðalfanghlutfall reyndist þá vera 74 prósent ef horft er til ósamstilltra áa sæddum með fersku sæði.“
Kynningarfundirnir sem verða haldnir um hrútakost nýrrar Hrútaskrár
- Búnaðarsamtök Vesturlands, miðvikud. 20. nóv., Lyngbrekka, Borgarbyggð kl. 20:00.
- Búnaðarsamtök Vesturlands, þriðjud. 19. nóv., Árblik, Dalabyggð kl. 20:00.
- Búnaðarsamb. Húnaþ. og Stranda, þriðjud. 19. nóv., Sævangur, Steingrímsf. kl. 14:00.
- Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda, miðvikud. 20. nóv., Víðihlíð kl. 20:00.
- Búnaðarsamband Skagfirðinga, sunnud. 24. nóv., Tjarnarbær kl. 20:00.
- Búnaðarsamband Eyjafjarðar, miðvikud. 27. nóv., Búgarður, Akureyri kl. 20:00.
- Búnaðarsamband S-Þingeyinga, þriðjud. 26. nóv., Breiðamýri kl. 13:00.
- Búnaðarsamband N-Þingeyinga, mánud. 25. nóv., Svalbarði kl. 20:00.
- Búnaðarsamband A-lands, mánud. 25. nóv., Valaskjálf (Þingmúli), Egilsst. kl. 13:00.
- Búnaðarsamband Suðurlands, mánud. 18. nóv., Þingborg kl. 20:00.
- Búnaðarsamband Suðurlands, þriðjud. 19. nóv., Hótel Smyrlabjörg kl. 14:00.
- Búnaðarsamb. S-lands, þriðjud. 19. nóv., Icelandair Hótel Klaustur, Kirkjub.kl. kl. 20:00.