Ný sálmabók tekin í notkun
Þann 13. nóvember sl. var ný útgáfa sálmabókarinnar tekin í notkun í kirkjum landsins.
Í guðsþjónustu Dómkirkjunnar í Reykjavík tók biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, formlega við fyrsta eintaki bókarinnar úr hendi forleggjarans. Í þessari nýju útgáfu eru 795 sálmar og var mikil breidd í vali þeirra, samkvæmt frétt á vef þjóðkirkjunnar. Inniheldur hún kjarnasálma sem sungnir hafa verið í aldir, ásamt mörgum sem orðið hafa til á síðustu árum.
Í samanburði við fyrri útgáfu sálmabókarinnar eru núna fleiri sálmar eftir konur og segir biskup það tímanna tákn. Önnur nýjung er að nokkrir sálmanna eru á frummálinu, hvort heldur sem það er Norðurlandamál eða önnur tunga.
Sálmabókin sem nú er verið að leysa af hólmi kom fyrst út árið 1972 og voru gerðar viðbætur á henni í gegnum tíðina – síðast 1997. Sálmabókanefnd hafði umsjón með vali sálmanna og hefur hún verið að störfum í nokkur ár.