Ný stjórn bænda
Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var kosið í stjórn Bændasamtaka Íslands til næstu tveggja ára. Þar höfðu 63 búnaðarþingsfulltrúar framboðs- og atkvæðarétt.
Þau sem hlutu kjör voru Axel Sæland, garðyrkjubóndi á Espiflöt; Herdís Magna Gunnarsdóttir, kúabóndi á Egilsstöðum; Petrína Þórunn Jónsdóttir, svínabóndi í Laxárdal; Reynir Þór Jónsson, kúabóndi á Hurðarbaki; Sigurbjörg Ottesen, kúabóndi á Hjarðarfelli; og Eyjólfur Ingvi Bjarnarson, sauðfjárbóndi í Ásgarði.
Kosið var sérstaklega til varastjórnar og raðast varamenn eftir fjölda atkvæða. Fyrsti varamaður er Steinþór Logi Arnarsson, sauðfjárbóndi í Stórholti. Á eftir honum koma Ásta Arnbjörg Pétursdóttir, eggjabóndi á Hranastöðum; Eydís Rós Eyglóardóttir, kjúklingabóndi á Vatnsenda; Jón Helgi Helgason, kartöflubóndi á Þórustöðum; og Björn Ólafsson, sauðfjárbóndi á Kríthóli.
Áður hafði Trausti Hjálmarsson, sauðfjárbóndi í Austurhlíð, verið kosinn sem formaður í almennri kosningu meðal allra félaga Bændasamtaka Íslands. Á Búnaðarþingi tók hann við embættinu af Gunnari Þorgeirssyni, garðyrkjubónda í Ártanga, sem hefur verið formaður síðastliðin fjögur ár.
Stjórnarmeðlimirnir Jón Örn Ólafsson, nautgripabóndi í Nýjabæ; Halldóra Kristín Hauksdóttir, eggjabóndi í Sveinbjarnargerði; og Halla Eiríksdóttir, sauðfjárbóndi á Hákonarstöðum gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og viku því úr stjórn.
Á fyrsta fundi sínum skipti ný stjórn með sér verkum þar sem Herdís Magna var valin varaformaður.