Nýjar höfuðstöðvar
Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra verða höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar á Akranesi og starfstöð á Hvanneyri.
Í júlí sameinuðust Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn í eina stofnun sem nefnist Náttúrufræðistofnun. Starfsmenn eru samtals áttatíu og dreifðir víða um landið. Frá þessu er greint í frétt á vef Stjórnarráðsins. Þar kemur jafnframt fram að sameining stofnana hafi verið hluti af heildarendurskoðun og einföldun stofnanaskipulags ráðuneytisins. Sérstök áhersla var lögð á að fjölga störfum utan höfuðborgarsvæðisins við endurskoðunina.
Hluti starfstöðvanna verður í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Í viljayfirlýsingu sem ráðherra undirritaði við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi segir að á Hvanneyri séu mikil tækifæri til samstarfs og samvinnu milli Náttúrufræðistofnunar og Landbúnaðarháskólans.