Nýr bústjóri Nautís
Davíð Ingi Baldursson hefur verið ráðinn sem bústjóri í einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti í Flóahreppi.
Davíð hefur þegar hafið störf og segir Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Nautís, starfið felast í almennum bústörfum. Á veturna þurfi að sinna gjöfum á þeim fjörutíu gripum sem einangrunarstöðin rúmar, á vorin þurfi að vakta burðinn og á sumrin séu kýrnar sæddar. Á hálfsmánaðar fresti séu gripirnir sem eru í einangrun vigtaðir og reglulega séu framkvæmdar sýnatökur á öllum gripum stöðvarinnar eins og reglugerð um innflutning erfðaefnis holdanauta gerir ráð fyrir. Sveinn nefnir að núna sé einangrunarstöðin tóm og þá sé keyrður út allur skítur og tækifærið nýtt til að þrífa og sótthreinsa hátt og lágt.
Davíð er uppalinn á Litla-Ármóti, sem er næsti bær við einangrunarstöðina. Hann er lærður húsasmiður og hefur starfað við þá iðn undanfarin ár. Þar að auki hefur hann sinnt afleysingum fyrir Nautís. Sveinn segir stjórn Nautís vænta góðs af störfum Davíðs, ásamt því sem það sé ótvíræður kostur að hann búi á Ármótsflöt sem sé í göngufæri frá einangrunarstöðinni.