Nýr kjarasamningur BÍ og Starfsgreinasambandsins
Þann 22. júní var undirritaður nýr kjarasamningur á milli Bændasamtaka Íslands og Starfsgreinasambandsins. Samningurinn byggist á aðalkjarasamningi SGS og Samtaka atvinnulífsins sem samið var um fyrir skemmstu.
Nær samningurinn yfir starfsfólk sem vinnur almenn landbúnaðarstörf. Sá samningur var einmitt samþykktur í almennri atkvæðagreiðslu SGS sama dag og samingurinn við BÍ var undirritaður. Launabreytingar eru með sama hætti og í aðalkjarasamningi sem og gildistíminn, en hann er til ársloka 2018.
Einu sértæku breytingarnar eru annars vegar þær að samningurinn er ekki lengur bundinn við landbúnaðarstörf á lögbýlum. Það er einkum gert til að skýra stöðu starfsmanna á garðyrkjubýlum en sum þeirra eru ekki lögbýli. Hins vegar var samið um hækkun á frádrætti vegna fæðis- og húsnæðiskostnaðar starfsmanna.
Samningurinn var staðfestur af stjórn BÍ þann 24. júní og er aðgengilegur á bondi.is.