Nýtt risa hótel á Hnappavöllum
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Framkvæmdir við nýtt hótel á Hnappavöllum í Öræfasveit eru komnar vel á veg.
„Hótelið verður formlega tekið í notkun 1. júní en fyrsta skóflustungan af því var tekin 14. apríl 2015, þannig að þetta er rétt rúmlega eitt ár sem hefur tekið að byggja hótelið sem er 5.800 fermetrar á stærð með 104 herbergjum og 16 herbergjum fyrir starfsmenn,“ segir Ólafur Ragnarsson, frá Húsheild. Hann er verkstjóri yfir byggingaframkvæmda nýja hótelsins.
Fosshótel munu reka hótelið sem kostar 1,4 til 1,6 milljarða króna ý byggingu.
„Ég er með 70 iðnaðarmenn á staðnum núna sem eru að vinna síðustu handtökin áður en það verður opnað. Þetta eru bæði Íslendingar og útlendingar, allt hörkumenn sem hafa staðið sig frábærlega. Mórallinn á vinnustaðnum er góður og allir kátir í Öræfasveitinni,“ bætir Ólafur við.