Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Jón Sigmar á Desjamýri lauk við að slá á sunnudagskvöld og vel viðraði svo í vikunni við að rúlla og ganga frá.
Jón Sigmar á Desjamýri lauk við að slá á sunnudagskvöld og vel viðraði svo í vikunni við að rúlla og ganga frá.
Fréttir 29. ágúst 2019

Ofboðslega leiðinlegt, sólarlítið og úr hófi fram úrkomusamt sumar

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Veðurgæðum hefur verið æði misskipt á Íslandi þetta sumarið. Á meðan íbúar á vesturhluta landsins böðuðu sig í meiri sól og blíðviðri en flestir telja sig hafa upplifað og bændur helst að berjast við of mikla þurrka, þá var rigning og leiðinda veðurlag að gera bændum norðanlands og austan lífið leitt.  

„Það sem einkenndi þetta heyskaparsumar er fyrst og fremst það hversu ofboðslega leiðinlegt það var, úr hófi fram úrkomusamt og sólardagar fáir. Bændur voru endalaust í startholum með heyskap sem svo ekkert  varð ekkert úr vegna þrálátra rigninga,“ segir Sigurður Þór Guðmundsson, bóndi í Holti í Þistilfirði.  Bæði þar og í Öxarfirði hafa bændur almennt lokið heyskap, en yfirleitt nokkru seinna en vant er.

Tjón upp á um milljón

Sigurður Þór Guðmundsson.

Sigurður segir að ótíð og þrálátar rigningar hafi gert að verkum að bændur í nágrenni við sig hefðu tapað heyi af 20 hektara túni, allt  ónýtt vegna bleytu. Tjón má meta á um eða yfir eina milljón króna í peningum, auk þess sem þar er einnig glatað fóður.

Flestir bændur á norðausturhorni landsins hafa lokið heyskap og telja að magnið muni nægja fyrir komandi vetur. Sigurður Þór segir að bændur njóti þess einnig að veðursæld hafi verið  með eindæmum góð undanfarin þrjú ár og uppskera með allra besta móti. Allir eigi því töluvert af fyrningum upp á að hlaupa komi til þess að hey skorti þegar líður fram á vorið. Það verði því aldrei nein vandræði.

Endalaus biðstaða

„Þetta sumar var í raun ekki alslæmt, það var í raun ágætlega hlýtt en sólardagar voru fáir og heyskapartíðin var það sem við köllum hundleiðinlegt. Maður var alltaf að bíða, sjá hvort viðraði fyrir slátt og hvort borgaði sig að hefjast handa. Langtímaveðurspá gekk oft ekki eftir og menn voru bara alltof mikið í biðstöðu, komust ekki í sumarfrí eða í önnur verk,“ segir Sigurður. Þeir bændur sem tök höfðu á að hefja slátt þegar vel viðraði á fyrstu júlídögunum komu best úr úr sumrinu segir hann. 

Muna vart annað eins í Borgarfirði eystra

Ég man ekki annað eins, en hér hafa elstu menn vitnað um að einhvern tíma fyrir löngu hafi ástandið verið svipað,“ segir Jón Sigmar Sigmarsson, bóndi á Desjamýri í Borgarfirði eystra. Hann lauk við að heyja á sunnudagskvöld. Telur sig vera með nóg fyrir sig til vetrarins en telur fráleitt hægt að hæla gæðum heysins að þessu sinni. Þoka og súld léku aðalhlutverkin í veðurfari Borgarfjarðar eystra á senn liðnu sumri.

Allt lagðist á eitt að gera Borgfirðingum lífið leitt þetta sumarið. Vorið var sérlega kalt, blautt og langdregið og hafði þau áhrif að þegar bændur ætluðu að huga að sínum heyskap þegar þokkalega vel viðraði í byrjun júlí var gras ekki nægilega sprottið.

„Þessi fínu dagar nýttust því alls ekki í heyskap sem var mjög miður. Við fengum svo nokkra daga síðustu helgina í júlí og um verslunarmannahelgi þar sem hann hékk nokkuð þurr og hægt að sinna slætti. En almennt hafa fáir samfelldir þurrkadagar komið í sumar, þetta er einn og einn dagur og mest tveir í röð. Annars hefur hann legið í norðaustanáttum og hér bara verið þoka og súld,“ segir Jón Sigmar.

Gras var yfirleitt úr sér sprottið þegar það var slegið og gæðin eru í lakari kantinum. Jón Sigmar telur sig eiga nóg hey fyrir veturinn, en hann rekur sauðfjárbú með um 500 kindum.

Hann lauk við slátt nú í byrjun vikunnar, á sunnudagskvöld, en segir að ef frá eru taldir örfáir tómstundabændur hafi bændur á svæðinu ekki lokið slætti. „Þetta hefur verið heldur leiðinlegt sumar, ómögulegt að ná inn almennilegum heyjum og nægilega þurru, það gerist varla verra en þetta og sjálfur man ég ekki svona tíð hér um slóðir en einhverjir mér eldri geta bent á eitt og eitt skipti fyrir langa löngu sem hafi verið álíka leiðinlegt,“ segir Jón Sigmar. 

Skylt efni: tíðarfar | heyskapur | hey | vætutíð

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...