Ógeðslegasti matur heims settur á stall
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Í lok síðasta árs var opnað eitt sérkennilegasta safn sem hægt er að fara á í Malmö í Svíþjóð þar sem yfir 80 tegundum af versta eða ógeðslegasta mat sem til er í heiminum er gert hátt undir höfði.
Vegna vinsælda safnsins ákváðu forsvarsmenn þess að opna annað útibú nokkrum vikum síðar í Los Angeles í Bandaríkjunum. Meðal þess sem sjá má og lykta af á safninu er íslenskur kæstur hákarl sem stillt er upp í sýningarrýminu með flösku af íslensku brennivíni.
„Samuel West, kunningi minn, fékk hugmyndina að safninu eftir að hafa komið safni mistaka af stað, þar sem sjá má um 100 vörur sem flokkast sem mistök í vöruhönnun, margar hverjar frá þekktustu fyrirtækjum heims. Við ákváðum að taka höndum saman og gera ógeðslega matnum hærra undir höfði,“ útskýrir Andreas Ahrens, framkvæmdastjóri safnsins.
Íslenski hákarlinn á sinn stað á safninu við hliðina á flösku af íslensku brennivíni.
Gott skemmtanagildi
Matur er miklu meira en bara næring, áferð, lykt og bragð haldast í hendur og það voru þessir þættir sem vöktu áhuga þeirra Andreas og Samuels. Þeir höfðu þá hugmynd að þessi skrýtni matur, sem kemur alls staðar að úr heiminum, gæti tengt fólk saman því að með því að deila máltíð geti það jafnvel breytt ókunnugum í vini.
„Gestirnir elska safnið þó að margir þeirra hafi kúgast hérna inni! Mjög margir hafa sagt við okkur að þetta sé besta safn sem þeir hafa komið á og með mesta skemmtanagildið. Við sýnum hér 82 diska frá öllum heimshornum, eins og brenndan naggrís frá Perú, surströmming frá Svíþjóð, íslenska hákarlinn og ítalska Casu marzu sem er sýktur ostur með möðkum í. Á sýningunni er matur frá um 40 löndum þar sem verst lyktandi maturinn að mínu mati er íslenski hákarlinn en bragðið af honum er þó ekki svo slæmt,“ segir Andreas brosandi.