Ólga hjá norskum bændum
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Ársfundur norsku bændasamtakanna var haldinn dagana 13.–15. júní síðastliðinn í Sarpsborg. Eins og við mátti búast var samningsrof við ríkið eitt af hitamálum fundarins en þó voru rándýr og landgræðsla þau málefni sem mesta umræða varð um á fundinum.
Í nýlegri könnun kemur í ljós að landbúnaður í Noregi stendur fyrir 22 prósenta eyðileggingu á ræktanlegu landi á árunum 2004–2015.
Á tímabilinu byggðu norskir bændur niður að meðaltali 1.750 hektara á ári af góðu ræktanlegu landi en um 72 prósent landsins er talið mjög gott ræktanlegt land.
Landgræðsla verði sett skör hærra
Norski landbúnaðarráðherrann, Jon Georg Dale, brýnir nú fyrir greininni að setja landgræðslu enn ofar til að lagfæra þessa tölfræði. Það kom einnig forsvarsmönnum norsku bændasamtakanna á óvart að greinin stendur fyrir einum fimmta af eyðileggingunni. Á sama tíma er um 16 prósenta eyðilegging á ræktanlegu landi sem fer í vegi og lestarteina en mestur hlutinn fer til bygginga á húsnæði, eða um 26 prósent.
Hér takast landbúnaðarráðherrann norski, Jon Georg Dale, og formaður norsku bændasamtakanna, Lars Petter Bartnes, í hendur en mikil óánægja er milli bænda og ríkis um þessar mundir.
Mikil umræða skapaðist á fundinum um rándýrapólitíkina en bændur voru vægast sagt illir yfir sinnuleysi stjórnvalda í þeim efnum en margir sauðfjárbændur hafa misst fé sitt í kjaft á úlfaflokkum sem leika sauðfé grátt. Á dögunum fundust 100 kindur sundurbitnar og dauðar í Hedmark- og Oppland-fylki sem talið er að úlfalæða frá Svíþjóð hafi ráðist á. Stjórnvöld hafa nú meðal annars leigt inn tvo veiðihunda frá Svíþjóð til að taka á ástandinu á þessu svæði.
Samingsslit við ríkið
Á fundinum urðu samningsslit við ríkið einnig heitt mál og var bændum þakkað fyrir þá samstöðu sem varð í kjölfarið. Um einn milljarður norskra króna var á milli krafna bændasamtakanna og þess sem ríkið var til í að koma til móts við bændur.
Vilja sömu hækkun og aðrar stéttir
Bændasamtökin kröfðust ramma upp á 1.450 norskar krónur en ríkið bauð upp á 450 milljónir. Þetta þýðir tekjuaukningu upp á 2,25% á meðan aðrar starfsstéttir eiga von á um 3,1% í tekjuaukningu sem þýðir að bændum var boðið 8.100 norskar krónur í aukningu á ársverk á meðan aðrar stéttir munu auka innnkomu sína um 16.700 norskar krónur á hvert ársverk, eða helmingi meira en bændur.
Degi eftir að ársfundinum lauk afgreiddi norska þingið búvörusamningana eða uppgjör samningsins. Þingið ákvað að útgjaldaramminn skyldi verða 625 milljónir norskra króna sem er enn langt frá kröfum bænda og er því þungt hljóð í forsvarsmönnum norsku bændasamtakanna þessa dagana.
Lars Petter Bartnes fékk yfirburðakosningu til áframhaldandi formennsku í samtökunum og Bjørn Gimming sömuleiðis sem varaformaður. Nýr annar varaformaður kom inn fyrir Britu Skallerud en það er Frøydis Haugen frá Hörðalandsfylki.