Orðasalat
Fréttir 16. september 2024

Orðasalat

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

„Annars vegar var um að ræða 100 m.kr. í verkefni sem stuðla eiga að aukinni rekstrarhagkvæmni í landbúnaði með hliðsjón af áherslum stjórnvalda ásamt vinnu við heildarstefnumótun fyrir stuðningskerfi landbúnaðar í samráði við bændur með hliðsjón af áherslum landbúnaðarstefnu.“

Þannig hljómar setning úr greinagerð matvælaráðuneytisins í nýjum fjárlögum. Ef þið skiljið ekki innihaldið svo samhengislaust þá boðar setningin útskýringu á niðurfellingu tímabundins framlags til landbúnaðar árið 2024. Framlagið verður ekki heimilað varanlega, enda stóð það aldrei til. Þetta er einhver luralegasta atlaga sem ég hef lesið að því að orða hluti pent.

Fálmkennd yrðing án eftirfylgni

Þessi setning afhjúpar þó ýmislegt. Í henni er vísað til hinna ýmsu verkferla stjórnvalda sem hafa starfrækt verkefnastjórnir og starfshópa sem unnið hafa greiningar og umræðuskjöl. Þau eiga að grundvalla stefnumótun eða áherslur stjórnvalda. Út frá þeim á að móta aðgerðir sem eiga að raungerast.

En orðaflaumurinn virðist aftra aðgerðunum. Því um leið og skýrslur og stefnur eru útgefnar virðist vera komin ástæða til að stofna aðrar nefndir til að greina stöðuna sem breytist jafnhratt og tíminn. Okkur birtast niðurstöður um hvert landbúnaður á að stefna í skýrslum sem klifa á stefum eins og sjálfbærni, nýsköpun, fæðuöryggi og líffræðilegum fjölbreytileika.

Aðgerðaáætlun matvælastefnu Íslands, sem einnig var gefin út á þriðjudaginn, er gott dæmi um þetta. Hún lýsir svokölluðum stefnumiðum og ákveðnum viðfangsefnum og innihalda tillögur sem nýttar verða til að meta framhald tiltekinna verkefna. Það eru tillögurnar að aðgerðum. Ekki nóg með það. Aðgerðaáætlun þessi er byggð á fjórum öðrum aðgerðaáætlunum, en þrjár þeirra eru enn í vinnslu.

Hin fálmkennda yrðing, í upphafi pistilsins, endurspeglar kannski einna helst hvernig blæti gagnvart skýrslu- og starfshópum og kerfislægu tungutaki er farið að flækjast fyrir höfundunum sjálfum, stjórnvöldum. Þetta eru orð, en þau virðast ekki skrifuð til þess að vera skilin, hvað þá fylgt eftir.

Skýru markmiðin

Ef vel er að gáð þá má finna í Fjármálaætlun 2025–2029 nokkur skýr hlutlæg markmið og mælikvarða á málefnasviði landbúnaðar. Til dæmis á að auka framleiðslu byggs verulega og mælieiningin er mælt flatarmál ræktarlands. Staðan árið 2023 er tiltekin, 3.274 ha, en miðað er við að árið 2029 verði 7.000 hektarar undir byggræktun. Fjármagn er eyrnamerkt eflingu kornræktar sem mun vonandi skila þessum árangri.

Annað er upp á teningnum þegar kemur að grænmeti. Samkvæmt markmiðum og mælikvörðum á að auka ylræktarframleiðslu um 25 prósent í tonnum. Staðan núna er 3.564 tonn en árið 2029 er miðað við að framleiddu tonnin verði 4.455 talsins. Þó að þessi varða sé svo skýrt mörkuð fylgja henni engar raunverulegar aðgerðir né fjármagn eins og í kornrækt. Þótt ótrúlegt megi virðast hefur ekki einu sinni verið stofnaður starfshópur til að greina stöðu og móta stefnu í búgreininni. Raunverulegur vandi garðyrkjubænda er hins vegar alveg skýr og frekar sláandi eins og fram kemur í tölublaðinu. Ylræktarframleiðsla eykst hvorki né rekur sig án nauðsynlegra aðfanga, sem nú eru af skornum skammti, og án þeirra er fyrirséð að markmiðin falla um sjálf sig.