Ótti við að kjöt af sýktum og sjálfdauðum skepnum hafi verið selt til manneldis
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Ráðuneyti landbúnaðar, matvæla og sjávarútvegs á Írlandi hefur hafið rannsókn til að komast til botns í ásökunum um að fölsuð hafi verið vottorð á miklu magni af kjöti af sjúkum og sjálfdauðum skepnum sem hafi verið unnið í ónefndri eyðingarstöð (knackery) á Írlandi og sagt selt til manneldis.
Breska blaðið Sunday Times greindi frá þessu í fyrri viku. Þar kemur fram að kjöt af dýrum sem ekki var hæft til manneldis var ekki úðað með sérstöku litarefni til að tryggja að það færi ekki til manneldis. Talið er að þess í stað hafi þetta kjöt verið eldað, hakkað og pakkað í mismunandi umbúðir og selt til neyslu. Sérstakt rannsóknarteymi á vegum ráðuneytisins mun hafa verið sett í málið.
Í gegnum tíðina hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á því hvort kjöt sem óhæft var til neyslu hafi verið selt á milli manna á svörtum markaði og inn á veitingastaði. Hingað til hefur ekki tekist að staðfesta slíkt. Er nú reynt að rekja feril á öllu kjöti sem borist hefur í eyðingarstöðina.
Ónothæft kjöt í gegnum „kjötþvott“ til manneldis
Í Sunday Times er vísað í rannsakendur sem telji að í sumum eyðingarstöðvum sem meðhöndla sjálfdauða og sýkta gripi og annað kjöt af dýrum sem ekki má nýta til manneldis, hafi einnig verið unnið kjöt af dýrum sem eyrnamerki hafa verið skorin af og eru talin stolin. Það hafi þannig verið „hreinþvegið“ í stöðvunum, líkt og þekkist í peningaþvætti, og sent þaðan inn á kjötmarkaðinn. Einnig er rannsakað hvort slíkt kjöt hafi verið selt í beinni sölu hús úr húsi.
Á vefsíðu Farm Ireland, var greint frá málinu 26. febrúar og þar var bent á að írskar eyðingarstöðvar eru ekki undir beinu eftirliti opinberra dýralækna ólíkt því sem gerist með kjötvinnslustöðvar. Matvælaöryggisyfirvöld á Írlandi (Food Safety Authority of Ireland - FSAI) hafi í fyrra greint frá áhyggjum sínum yfir gæðamálum sumra írskra eyðingarstöðva. Hafi FSAI bent á að ekkert regluverk væri til að koma í veg fyrir að dýr sem drepist höfðu af völdum sjúkdóma rötuðu til manneldis eða í fóður dýra.
Einnig kom í ljós að dýr höfðu verið skotin á færi af óreyndu starfsfólki og miklir annmarkar væru á að það stæðist kröfur um meðferð dýra til matvælaframleiðslu. Í einu vinnslufyrirtæki fannst verulegt magn af dýraafurðum pökkuðum í plastpoka og geymdar í frystigámum. Voru þær án nokkurra merkinga um hvaðan kjötið var upprunnið.
Engin úttekt af hálfu ESB í fjölda ára
Landbúnaðarráðuneyti Írlands gefur út vinnsluleyfi fyrir eyðingarstöðvar. Það hefur staðfest að engin úttekt eða endurskoðun hafi farið fram á írskum eyðingarstöðvum af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eða nokkurra annarra ESB-stofnana í fjölda ára.