Óvenju slæmar heimtur í rysjóttu tíðarfari
„Þetta hafa verið óvenju slæmar heimtur í haust, en er smám saman að koma. Það vantar eina og eina tvílembu á bæ sem ættu að vera einhvers staðar en hafa ekki fundist enn,“ segir Daði Lange, umhverfisfulltrúi Skútustaðahrepps. Hann telur að rysjótt tíðarfar nú á haustdögum hafi sett strik í reikninginn.
Daði segir að þegar farið var í fyrstu göngur hafi verið heitt og mikill vargur sem gert hafi mönnum erfitt fyrir. Umskipti hafi svo verið í veðri í göngum númer tvö, þá var snjór yfir öllu, þoka og súld. „Það hefur verið mikil ótíð í haust og má sennilega skrifa þessar frekar lélegu heimtur á hana meðal annars, en bændur eru búnir að leggja mikla aukavinnu í smalamennskur þetta haustið.
Austurafréttur er mjög stór afréttur og leitóttur sem gerir verkið erfiðara en ekki ógerlegt,“ segir Daði.
Mývetningar hafa farið þónokkrar ferðir í afrétt í leit að fé og segir Daði að alltaf finnist eitthvað, þannig náðust ellefu kindur nú í vikunni í einni ferðinni. Segir Daði að bændur víðar á svæðinu hafi lent í svipuðu, m.a. þeir sem farið hafi um svæðið við Þeistareyki.