Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Óvenjulegi ærdauðinn: Ýmsar tilgátur en engar haldfastar niðurstöður
Mynd / smh
Fréttir 25. júní 2015

Óvenjulegi ærdauðinn: Ýmsar tilgátur en engar haldfastar niðurstöður

Höfundur: smh
Sem kunnugt er af fréttum undanfarinna vikna hefur talsvert borið á óvenjulegum ærdauða víðs vegar á landinu. Um talsverð afföll er að ræða í sumum tilvikum. Landssamtök sauðfjárbænda og Matvælastofnun vinna nú hörðum höndum að því að leita skýringa á þessum ærdauða og leita eftir aðstoð bænda til að kanna umfang og útbreiðslu með skrásetningu í gegnum Bændatorg, sem finna má undir vef Bændasamtaka Íslands (bondi.is). Auk þess hefur ítarleg spurningakönnun verið send út til allra sauðfjárbænda.
 
Sigurður Sigurðarson, dýralæknir og fyrrverandi yfirdýralæknir, má teljast með þeim reynslumeiri í því að fást við veikt sauðfé enda með um fjörutíu ára starfsreynslu að baki. „Af því sem ég hef séð og frétt af er ekkert sem bendir til þess að þarna geti verið um sjúkdóm að ræða eða eitrun – og allra síst frá Holuhrauni því það hefur borið mest á þessum dauðsföllum í hvað mestri fjarlægð frá gosstöðvunum,“ segir Sigurður.
 
Samverkandi þættir hafa gert útslagið
 
„Mínar tilgátur, auðvitað með fyrirvara því ég hef ekki grandskoðað þetta, eru þær að þarna sé um að ræða samverkandi þættir sem séu valdur að þessu. Í fyrsta lagi eru hey mjög léleg frá fyrra ári, kuldinn í vor hefur haft áhrif og svo eru menn að rýja kindur – en það ætti alls ekki að gera vegna þess hvað þær eru í lélegum holdum. Fóstrin hafa forgang af því sem skepnurnar fá í sig af næringu og því verður of lítið eftir handa kindunum. Svo hefur fita markvisst verið ræktuð úr stofninum á kostnað vöðva, en hún er skjöldur líkamans gegn kulda. Þegar bændur fóru að bregðast við þessu með því að gefa fóðurbæti þá veit ég til þess að í það minnsta einhverjar tegundir af fóðurbæti eru orðnar lakari próteingjafar en áður fyrr, þar sem nú er meira um að notað sé soja í stað fiskimjöls – og það getur skipt máli,“ segir Sigurður sem hefur krufið nokkrar kindur og borið saman bækur sínar við aðra dýralækna og fengið ágætan hljómgrunn fyrir þessum tilgátum.
„Ég hef aðeins heimsótt bændur og kíkt á aðstæður, en það hefur ekki verið mikið þar sem ég er hættur störfum og hef því þann fyrirvara á þessu að ég er ekki að vinna að fullu í þessu. Ég hef þó langa reynslu af því að eiga við sauðfjársjúkdóma og held að reynslan telji eitthvað. Í því sem ég krufði var til dæmis ekkert sem benti til þess að um smitsjúkdóm gæti verið að ræða,“ segir Sigurður. 
Hann bætir því við að það sé heldur ekki til bóta – þegar svona mál koma upp – að ekki sé nein almennileg forðagæsla lengur til staðar í landinu.
 
Hvorki næringarskortur né kuldi
 
„Það er engin niðurstaða komin enn í málið. Við erum bara enn að vinna hörðum höndum að því að safna gögnum og senda sýni til rannsókna í samvinnu við Matvælastofnun,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda (LS). „Það er búið að taka blóðsýni á töluvert mörgum bæjum og talsvert verið krufið líka. Það er ljóst að það er eitthvað meira að en einungis að um lélegt fóður sé að ræða. Ég get ekki heldur verið sammála því að kuldi og lélegt fóður geti verið ástæðan. Ég rökstyð það þannig að stærsti hlutinn af þessum ám sem hafa drepist, drápust fyrir burð – og því hefur kuldi ekki áhrif á það. Það er líka athyglisvert að þegar bændur brugðust við þeim aðstæðum sem komu upp með því að hlú að þeim með betri fóðrun og aðbúnaði, þá svöruðu ærnar því illa eða alls ekkert. Það er samt alveg rétt hjá Sigurði að einhverjar ær hafa drepist úr kulda,til dæmis í þessum hvelli sem kom í byrjun júní,“ segir Þórarinn.  
„Ég þekki orðið þetta ástand ágætlega – enda hef ég lent sjálfur í þessu. Ég get sagt að í mínum tilvikum hafi ærnar ekki drepist úr næringarskorti og ekki úr kulda, því í öllum tilvikum hafa ærnar verið inni sem drápust. Mjög margir reyndu að grípa inn í strax í byrjun með því að taka þessar ær frá og fóðra þær sér; á lýsi, fóðurbæti, jafnvel betra heyi og fleiru. Einhverjir eru með niðurstöður heyrannsókna og geta því séð efnainnihaldið. Það sem er hins vegar sammerkt með þessum ám sem hafa drepist er að þær hafa ekki svarað betri fóðrun og aðbúnaði. Þá hlýtur eitthvað meira að vera að. Við erum með dæmi af bæjum sem liggja hlið við hlið og eru með svipaða búskaparhætti, þar sem á öðrum bænum hafa 10–15 prósent af ánum drepist yfir veturinn, en á hinum ekki neitt. Það er líka merkilegt að oft á tíðum eru þær ær sem hafa lifað af – á þessum bæjum sem hafa lent illa í þessu – oft í toppstandi,“ segir Þórarinn.
 
Hann segir að áfram verði safnað gögnum – í það minnsta út vikuna – til að hægt verði að komast til botns í þessu sem allra fyrst. Það sé afar mikilvægt að bændur veiti upplýsingar um sín bú svo hægt sé að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir. Eitthvað sé um að bændur hafi byrjað á því að svara könnuninni inni á Bændatorginu en ekki klárað. Mikilvægt sé að það sé gert.
 
Ríflega 200 bændur svarað á Bændatorginu
 
Að sögn Svavars Halldórssonar, framkvæmdastjóra LS, höfðu 245 bændur svarað könnuninni í  gærmorgun á Bændatorginu. Hjá þeim hafa um 2.998 ær drepist og þar af 1.500 óbornar. Til samanburðar drápust 1.435 ær á heilu ári þar á undan (haust 2013 til hausts 2014) hjá þessum 245 bændum. Þetta er 101% aukning, jafnvel þótt tímabilið sé styttra. Sé farið ári lengra aftur í tímann (haust 2012 til hausts 2013) sést að þá drápust 1.153 dýr. Aukningin miðað við það er 160%. 
 
Tekin hafa verið 35 blóðsýni úr veikum kindum á Norðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum.  Að auki voru sjö kindur krufnar á Keldum. Áður höfðu Keldur fengið sex ær til krufningar frá bændum svo í heildina höfðu þrettán ær verið krufnar í byrjun þessarar viku. Enn bólar ekkert á skýrum svörum.
Matvælastofnun hefur valið tíu fjárbú til rannsókna og sýnatöku. Tekin verða blóðsýni, auk þess sem velja á veikburða ær til krufningar. Um 20 sýni verða tekin á hverjum bæ, tíu úr sauðfé sem sýnir einkenni og önnur tíu úr sýnilega heilbrigðu fé. 
 
Rannsóknin er nú að fullu í höndum Matvælastofnunar í náinni samvinnu við LS. Könnuninni á Bændatorginu verður lokað á miðnætti sunnudaginn 28. júní.

2 myndir:

Skylt efni: ærdauði

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...