Ólga í evrópskum bændum
Í sumar stóðu bændur í Hollandi og víðar um Evrópu fyrir öflugum mótmælum vegna ýmissa ákvarðana stjórnvalda sem snerta umhverfismál, landbúnað, verðhækkanir og afkomu bænda og neytenda.
Talsmenn bænda segja að með ákvörðunum sínum séu stjórnvöld að draga úr möguleikum bænda til að framleiða matvæli á viðráðanlegu verði og skerða lífsafkomu þeirra.
Green Deal samningurinn frá 2020 er stefnumótandi samþykkt framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um að lönd innan sambandsins verði loftslagshlutlaus árið 2025. Í samningnum er einnig gert ráð fyrir að dregið verði úr að minnsta kosti 50% losun á gróðurhúsalofttegundum fyrir árið 2030.
Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að öll gildandi lög um endurnýjun bygginga, hringrásarhagkerfi, líffræðilegan fjölbreytileika, landbúnað og matvælaframleiðslu verði endurskoðuð og uppfærð.
Markmið Green Deal
Aðgerðaáætlun Green Deal samþykktarinnar í tengslum við landbúnað og matvælaframleiðslu kallast From Farm to Fork. Meginmarkmið áætlunarinnar snýst um sjálfbærni í landbúnaði og matvælaframleiðslu, hvort sem það er til sjós eða lands, framleiðsluaðferðir, umbúðir og flutninga. Í samþykktinni er meðal annars gert ráð fyrir að dregið verði úr notkun eiturefna í landbúnaði og framboð á hollum matvælum aukið.
Markmið samþykktarinnar hvað varðar landbúnað og matvælaframleiðslu fyrir árið 2030 eru eftirfarandi:
- Að 25% landbúnaðar- framleiðslu innan Evrópusam- bandsins verði lífræn
- Að dregið verði úr notkun eiturefna í landbúnaði um 50%
- Að dregið verði úr notkun kemísks áburðar um 20%
- Að dregið verði úr útskolun næringarefna úr jarðvegi um 50%
- Að dregið verði úr notkun á sýklalyfjum í landbúnaði og fiskeldi um 50%
- Að settar verði sjálfbærni- merkingar á matvæli
- Að minnka matarsóun um 50%
Stóra ákvarðanir í Hollandi
Ákvarðanir stjórnvalda sem snúa að framkvæmd markmiða Green Deal í landbúnaði gera bændum meðal annars skylt að draga verulega saman í notkun á nituráburði, fækka búfé og draga úr losun á koltvísýringi til að vernda umhverfið.
Holland er stærsti útflytjandi kjöts í Evrópu og fjöldi búfjár þar mjög mikill miðað við flatarmál landsins. Í sumum tilfellum hefur bændum þar í landi verið gert að fækka búfé um helming eða stjórnvöld boðist til að kaupa jarðir þeirra svo þeir hætti búskap. Að sögn fulltrúa hollenskra stjórnvalda er tilgangurinn að minnka metanlosun.
Bændur benda aftur á að á sama tíma losi stórfyrirtæki, flugfélög, iðnaður, flutningar og samgöngur um allan heim gríðarlegu magni gróðurhúsalofttegunda án teljandi afskipta stjórnvalda. Þetta þykir bændum og samtökum þeirra óréttlátt og segja að ábyrgðinni sé alfarið varpað á þá og að ákvarðanir stjórnvalda grundvallist á skammsýni og óvirðingu fyrir mikilvægi matvælaframleiðslu, og komi illa niður á starfsemi þeirra og landbúnaði í heild.
Aðföng hækka í verði
Á sama tíma og bændum er gert að breyta búháttum sínum með tilfallandi kostnaði hefur kostnaður vegna aðfanga í landbúnaði hækkað verulega. Slíkar hækkanir leiða til hækkana á framleiðsluverði og hækkunar matvælaverðs.
Þá hefur innflutningur á ódýrum matvælum aukist frá löndum þar sem reglur um framleiðslu eru ekki eins strangar, eftirlit minna, laun lægri og aðbúnaðarreglugerðir fyrir búfé lakari.
Vilja fækka búfé um helming
Árið 2019 kom út skýrsla Heilbrigðis- og umhverfisstofnunar Hollands þar sem kom fram að búfjárbændur í landinu bæru ábyrgð á losun 46% alls niturs í jarðvegi með dreifingu á búfjáráburði. Í skýrslunni segir einnig að eina raunhæfa leiðin til að draga úr skaðlegum áhrifum niturs í jarðvegi, ám og vötnum sé með því að fækka búfé.
Upphaf bændamótmælanna í sumar má rekja til tillögu sem kom fram á hollenska þinginu skömmu eftir að skýrslan kom út og lagði til að fækka skyldi búfé í landinu um helming. Í kjölfarið hafa svo margir aðrir þættir komið fram sem hafa ýtt frekar undir mótmælin. Meðal annars auknar kröfur stjórnvalda um mikinn samdrátt í notkun á nitri og losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði, aukinn innflutningur matvæla og nú síðast hækkun orkuverðs vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Lögreglan skaut á bændur
Í júní síðastliðinn gripu rúmlega 40 þúsund bændur í Hollandi til aðgerða vegna samþykktar stjórnvalda um minni losun niturs í landbúnaði og lokuðu vegum með dráttarvélum og neituðu að selja framleiðslu sína í verslanir.
Mótmælin vöktu talsverða athygli þar sem til harðra átaka kom milli bænda og lögreglu þar sem bændur kveiktu í heyböggum við opinberar byggingar. Að sögn lögreglu reyndu bændur í nokkrum tilfellum að aka dráttarvélum sínum á lögreglubíla og lögreglan skaut viðvörunarskotum í átt að bændum.
Mótmælin breiðast út
Í framhaldi af mótmælunum í Hollandi breiddust þau út til fleiri landa og þýskir, spænskir, ítalskir og pólskir bændur fylgdu í fótspor Hollendinganna.
Þrátt fyrir að ástæður mótmælanna séu af svipuðum meiði og snúist um óánægju bænda með aðgerðir stjórnvalda er yfirleitt áherslumunur á þeim milli landa.
Þýskir bændur mótmæltu meðal annars vegna nýrra laga um endurnýtanlega orku sem þeir segja að veiti ekki nægan stuðning til framleiðslu á lífdísil. Að sögn framkvæmdastjóra samtaka þýskra bænda sé óskiljanlegt að í orkukreppu sé verið að hefta framleiðslu á sjálfbærum innlendum orkugjafa.
Mótmæli pólskra bænda í Varsjá voru undir slagorðunum „Nú er nóg komið“ og „Verkamenn bera ekki ábyrgð á kreppu sem stjórnmálamenn hafa skapað“ og snerust aðallega um hækkun á verði á áburði og innflutningi ódýrum matvælum.
Á Spáni lokuðu bændur í suðurhluta Andalúsíu vegum og mótmæltu háu eldsneytisverði og hækkun aðfanga og nauðsynjavöru.
Á Ítalíu töfðu bændur borgarumferð með hægagangi dráttarvéla af sömu ástæðum.
Tvíeggja sverð
Stjórnmálamenn vöruðu við áframhaldandi mótmælum og mögulegum áhrifum þeirra fyrir hagkerfið, sér í lagi í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu og óvissunnar í kjölfar hennar.
Aðrir sögðu að lönd Evrópusambandsins yrðu að gyrða sig í brók og tryggja fæðuöryggi innan landa sambandsins. Að öðrum kosti mundi það koma niður á allri matvælaframleiðslu í heiminum og kynda undir aukinni verðbólgu.
Breyttir búskaparhættir
Skilaboð stjórnvalda vegna aðgerða sem tengjast aðgerðaáætlun Green Deal eru skýr. Til að ná markmiðum áætlunarinnar verða margir bændur að hætta búskap og þeir sem búa áfram verða að aðlaga búskaparhætti sína að nýjum aðstæðum og kröfum umhverfinu til hagsbóta, ekki síst með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Talsmenn bænda segja rétt að grípa verði til aðgerða í umhverfismálum en að þeir geti ekki einir borið ábyrgð á þeim aðgerðum. Samfélagið allt verði að vinna að markmiðum Green Deal sameiginlega. Bændur segja jafnframt að tillögur þeirra hafi fram til þessa verið hunsaðar og stjórnvöld ekki verið til viðræðu um að leysa ágreininginn í samvinnu við þá.
Green Deal hefur ekki áhrif á Íslandi
Í svari frá matvælaráðuneytinu um hvort eða hvernig áhrif Green Deal- samþykkt Evrópusambandsins hefði áhrif á bændur á Íslandi segir að heilt yfir hafi stefnumótun ESB í landbúnaðarmálum ekki beina þýðingu hér á landi, enda landbúnaður ekki hluti EES sáttmálans.
„Innan styrkjakerfis landbúnaðarins á Íslandi hefur aukin áhersla verið lögð á loftslagsmál síðustu ár og áætlað að þau verði jafnframt í forgrunni við næstu endurskoðun búvörusamninganna sem fer fram á næsta ári.
Þá er einnig unnið að mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland þar sem áhersla er lögð á loftslagsmál og umhverfisvernd. Við þá vinnu er tekið mið af sérstöðu íslensks landbúnaðar sem er stundaður við aðstæður sem eru verulega frábrugðnar því sem gerist í löndum Evrópusambandsins, bæði markaðslega og veðurfarslega.
Sérfræðingar matvælaráðuneytisins fylgjast grannt með þróun landbúnaðarmála innan ESB og nýta þá reynslu við stefnumörkun fyrir íslenskan landbúnað en ekki liggur endanlega fyrir hvort eða hvaða áhrif Green Deal gæti haft hér á landi með tilliti til skuldbindinga og tæknilegrar útfærslu í loftslagsmálum.“