Plastpokar í stað ískælingar
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í vefriti Israel Agri 8. júní er greint frá nýjungum í pökkun á grænmeti. Þar er rætt um aðferð sem þróuð hefur verið af ROP og sérstökum „XC-Broccoli retail“ plastpokum sem fyrirtækið selur. Þar mun þó að því er virðist ekki vera um nein geimvísindi að ræða.
Við flutninga á grænmeti eins og viðkvæmu brokkólíi um langan veg á markað í heitari löndum með flutningabílum eða flugvélum, hefur gjarnan verið mokað ís yfir það til kælingar svo það skemmist síður. Þetta hefur í för með sér margvíslega ókosti auk þess að auka þyngd vörunnar í flutningi.
Aðferð sem ROP hefur kynnt miðar að því að minnka kostnað í flutningi og draga úr hættu á örverumyndun og skemmdum sem orðið getur þegar ísinn þiðnar. Samt sem áður á aðferð ROP að tryggja ferskleika og gæði pakkaðs brokkólí í langan tíma, eða allt að mánuði við 1 til 3 gráður á Celsíus. Einnig er þessi aðferð sögð tryggja gæði í allt að viku í hillum verslana við 16 til 18 gráðu hita. Þá er aðferðin sögð koma í veg fyrir að brokkólí gulni og í því myndist mygla. Það á líka síður að svertast vegna oxunar og haldast lengur stíft og ferskt en ella.
Í raun virðist ekki vera um annað að ræða en að plastpokarnir eru ekki hafðir stærri en nauðsynlegt er. Við pökkun er síðan tryggt að loftmagnið í pokunum verður eins lítið og mögulegt er, eða um eða innan við 10%, og tryggt með góðri lokun svo að loft komist heldur ekki inn í pokann. Vart er hægt að kalla þetta geimvísindi, en svo virðist sem þetta virki samt vel.