Ráða þarf niðurlögum ágengra plantna
Umhverfisnefnd Þingeyjarsveitar hefur lagt til að starfshópur um aðgerðir um upprætingu og heftingu ágengra plantna verði settur aftur í gang og gerð langtímaáætlun um aðgerðir.
Segir í fundargerð nefndarinnar frá byrjun mánaðarins að „nokkur vinna tengd kortlagningu og upprætingu ágengra plantna hafi farið fram í Þingeyjarsveit (eldri) og Skútustaðahreppi. Náttúrustofa Norðurlands vann að kortlagningu framandi ágengra plöntutegunda í Þingeyjarsveit árin 2019 og 2020 og skilaði af sér skýrslu í lok þeirrar vinnu. Í Skútustaðahreppi var stofnaður starfshópur um aðgerðir um upprætingu og heftingu á útbreiðslu kerfils, lúpínu og njóla árið 2019.“ Kemur fram að sumrin 2020 og 2021 hafi verið ráðinn sumarstarfsmaður á vegum Skútustaðahrepps til þess að kortleggja og uppræta ágengar plöntur.
Lögð er áhersla á að haldið verði áfram vinnu við eyðingu ágengra plantna í sveitarfélaginu og er sveitarstjórn hvött til að leita samstarfs við hagaðila um verkefni sumarsins.