Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins vill minna á að landbúnaður er fleira en matvælaframleiðsla. Framleiðnisjóður styður við afar fjölbreytt viðfangsefni frumvinnslugreinarinnar landbúnaðar.
Stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins vill minna á að landbúnaður er fleira en matvælaframleiðsla. Framleiðnisjóður styður við afar fjölbreytt viðfangsefni frumvinnslugreinarinnar landbúnaðar.
Fréttir 18. júní 2019

Ráðgert er að Framleiðnisjóður landbúnaðarins renni inn í nýjan matvælasjóð

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Ein af þeim hugmyndum sem ráðgert er að grípa til sem mótvægisaðgerð ríkis­stjórnarinnar við niðurfellingu frystiskyldu á kjöti til landsins er stofnun nýs matvælasjóðs á breiðum grunni. Ráðgert er að Framleiðnisjóður landbúnaðar­ins verði lagður niður og renni inn í þann sjóð. Búist er við frumvarpi sjávarútvegs- landbúnaðarráherra um málið næsta haust.
 
Þann 31. maí síðastliðinn sendi atvinnuveganefnd Alþingis frá sér tillögu að þingsályktun varðandi mótvægisaðgerðir vegna kjötfrumvarpsins svonefnda þar sem hætt verður að krefjast frystiskyldu við innflutningi á hráu kjöti. Er það liður í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar. Þar segir m.a. í lið 10.:
 
Framleiðnisjóður og ASV sameinaðir
 
Settur verði á fót sjóður með áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu. Til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu er lagt til að settur verði á fót sjóður með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Talið er að með sameiningu sjóðanna megi efla og styrkja nýsköpunar- og þróunarumhverfi atvinnugreinanna. Til að ná því markmiði verður aukið fjármagn sett í slíkan sjóð. Tryggt verði að hlutfallsleg skipting fjármagns til þessara atvinnugreina verði með sambærilegum hætti og nú er. 
 
Stjórn Framleiðnisjóðs telur að skoða þurfi málið betur
 
Elín Aradóttir.
Elín Aradóttir, formaður stjórnar Framleiðnisjóðs, segir að mörgum spurningum sé ósvarað varðandi umrædd áform. Hætta sé á að þar hverfi úr landbúnaðargeiranum stuðningur sjóðsins við fjölmörg verkefni sem lúta ekki endilega beint að matvælaframleiðslu en eru mikilvægur liður í að styrkja byggð í byggðum vítt og breitt um landið.  Þá verði líka að hafa í huga að starfsemi Framleiðnisjóðs sé hluti af rammasamningi um landbúnaðinn sem nú er í gildi og því varla hægt að leggja hann niður með einhliða ákvörðun yfirvalda án náins samráðs við bændur sem þar eiga mikilla hagsmuna að gæta.
 
 
Hugmyndir hafa ekki verið ræddar við BÍ
 
„Í dag er úthlutað úr Framleiðnisjóð til margvíslegra verkefna sem eiga það sammerkt að stuðla að nýsköpun og  þróun í landbúnaði sem og afurðavinnslu. Honum er þannig ætlað að styrkja búsetu í sveitum landsins til framtíðar,“ segir Guðrún Tryggvadóttir, formaður BÍ.  
 
Guðrún Tryggvadóttir.
„Sjóðurinn hefur því verið mikilvægur í starfsemi landbúnaðarins.  Um framlög í Framleiðnisjóð er samið í rammasamningi, því gerum við ráð fyrir að taka þátt í skipulagi og stefnumótun á þessum nýja sjóði hvað landbúnaðinn varðar, enda eru framlög til Framleiðnisjóðs hluti af rammasamningi landbúnaðarins auk þess sem sjóðurinn fer með ráðstöfun þróunarfjár í sauðfjárrækt, nautgriparækt og garðyrkju skv. þeim samningum.
 
 
Við erum opin fyrir því að vinna að leiðum landbúnaðinum til hagsældar og framfara,“ segir Guðrún Tryggvadóttir. 
 
Ekki endilega besta leiðin
 
Elín Aradóttir segir að í grundvallaratriðum sé auðvitað mjög jákvætt og að sínu áliti í raun sjálfsagt að efla nýsköpunarumhverfi íslenskrar matvælaframleiðslu. Það verði gert  til að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem aukinn innflutningur mun óhjákvæmilega hafa á innlenda framleiðslu. 
 
„Aukið fjármagn til þróunar er augljóslega af hinu góða. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé ekki endilega landbúnaði og þróunarumhverfi greinarinnar fyrir bestu að það verði gert með þessum hætti.
 
Ég tel mikilvægt að bændur og aðrir hagsmunaaðilar standi vörð um Framleiðnisjóð sem verið hefur nýsköpunar- og framfarasjóður landbúnaðarins í meira en hálfa öld.“ Hér er vert að nefna að stjórn Framleiðnisjóðs skilaði inn umsögn um viðkomandi lagafrumvarp í mars síðastliðnum, þar sem vakin var athygli á ýmsum atriðum sem stjórn taldi að skoða þurfi vel áður en ákvörðun um að leggja niður Framleiðnisjóð yrði tekin. Elín bætir við: „Með þessu er ég ekki að segja að Framleiðnisjóður sé yfir gagnrýni hafinn. Staðið hefur til nokkuð lengi að endurskoða löggjöf um sjóðinn og alltaf má gera betur. Það þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram að núverandi stjórnendur sjóðsins eru boðnir og búnir til samráðs um framtíðina.“
 
Landbúnaður er meira en matvælaframleiðsla 
 
Að sögn Elínar sinnir Framleiðnisjóður landbúnaðarins mjög fjölbreyttum verkefnum. Starf sjóðsins markast af þeirri sýn að landbúnaður sé afar víðtækt hugtak, mun víðtækara en orðið matvælaframleiðsla gefi til kynna. Sjóðurinn hafi til að mynda mikilvægu hlutverki að gegna í byggðalegu samhengi, sér í lagi í tengslum við styrkveitingar til nýsköpunarverkefna á vegum bænda. Framleiðnisjóður styðji jafnframt við ýmis hagnýt rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði skógræktar og landnytja, ýmis verkefni sem tengjast framþróun ráðgjafarþjónustu fyrir bændur og margvísleg fræðslutengd verkefni, svo dæmi séu tekin.
 
„Að mínu mati er ekki ljóst hvort þessi verkefni muni eiga heima hjá nýjum matvælasjóði og því mikilvægt að tryggja að þau verði ekki útundan,“ segir Elín. 
 
Hin víða sýn er nauðsynleg
 
„Ég held að íslenskur landbúnaður hafi sjaldan staðið frammi fyrir jafn mörgum tækifærum og nú. Sú víðtæka skilgreining landbúnaðar sem unnið er eftir hjá Framleiðnisjóði er nauðsynleg til að við getum nýtt þessi tækifæri. Breyttar neysluvenjur Íslendinga og annarra vestrænna þjóða, sem og hlýnandi loftslag á norðlægum slóðum skapa vissulega margvísleg ný tækifæri til matvælaframleiðslu á Íslandi, sér í lagi á sviði ræktunar, en ekki má líta fram hjá öðrum tækifærum. Ég leyfi mér til að mynda að fullyrða að engin önnur atvinnugrein á Íslandi geti lagt jafn mikið af mörkum til verkefna er varða kolefnisbindingu. Því má ekki gleyma að innan stoðkerfis landbúnaðar býr umtalsverð þekking sem nýst getur í þessu samhengi og bændur búa sjálfir yfir mikill verkþekkingu og þekkingu á aðstæðum sem hér gæti nýst. Mér finnst umræðan um nýjan matvælasjóð ekki taka á því hvernig við ætlum að nálgast þessi viðfangsefni.“ 
 
Nýsköpun í sveitum 
 
Framleiðnisjóður hefur á undanförnum misserum staðið fyrir hvatningar- og átaksverkefnum sem hafa það að markmiði að efla nýsköpun til sveita. Nærtækt dæmi er verkefnið „Gríptu boltann“, sem unnið var í samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML). Að sögn Elínar féll verkefnið í mjög góðan jarðveg hjá bændum. Nú er jafnframt stefnt að samstarfi sjóðsins við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og RML um námskeiðahald til sveita um mótun viðskiptahugmynda og stofnun fyrirtækja. Þessi hvatningarverkefni ríma vel við þær áherslur stjórnenda sjóðsins að stór hluti styrkveitinga skuli nýtast beint í grasrótinni. Nær helmingur úthlutaðs fjármagns frá Framleiðnisjóði, á undanförnum árum, hefur runnið til nýsköpunarverkefna á vegum bænda á bújörðum. Hér er átt við atvinnuskapandi verkefni sem bændur standa fyrir í stað eða til viðbótar framleiðslu í hefðbundnum búgreinum. Ljóst er að mörg störf hafa orðið til í sveitum landsins fyrir tilstuðlan þessara styrkja. Nefna má uppbyggingu ferðaþjónustu, ýmiss konar heimavinnslu afurða, smáiðnaðar og margt fleira. „Við tókum nýverið saman upplýsingar um þennan styrkjaflokk aftur til ársins 2003. Alls hafa verið veitt 560 styrkloforð á tímabilinu 2003–2019 og um 90% þessara styrkja hafa verið sóttir. Myndræn framsetning landfræðilegrar dreifingar þessara styrkja sýnir í hnotskurn um hversu öfluga byggðaðgerð er hér að ræða,“ segir Elín 
 
Höldum ljósunum logandi
 
– Nú eru mörg umræddra nýsköpunarverkefna á vegum bænda ekki á sviði matvæla­framleiðslu. Af hverju ættu þróunarfjármunir landbúnaðarins að renna til verkefna sem tilheyra öðrum atvinnugreinum, s.s. ferðaþjónustu?
 
„Það er flestum ljóst að íslenskar sveitir þurfa á aukinni fjölbreytni í atvinnulífi að halda og sem betur fer er matvælaframleiðsla í dag aðeins ein þeirra atvinnugreina sem lifa góðu lífi í sveitinni. Allt styður þetta hvað við annað. Bjarni Guðmundsson, prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, var um árabil formaður stjórnar Framleiðnisjóðs og hann orðaði þetta eitthvað á þá leið að til að stuðla að öflugum samfélögum og atvinnulífi í íslenskum sveitum þyrftu ljósin að vera kveikt á bæjunum. Ég tel að með þeirri víðu sýn sem Framleiðnisjóður vinnur eftir í dag, séum við að auka líkur á að sveitirnar dafni til framtíðar.“
 
Mikilvægt að hagsmunaaðilar haldi vöku sinni
 
Elín vill vekja sérstaklega athygli á því að um fjármuni til Fram­leiðnisjóðs sé samið í ramma­samningi Bændasamtaka Íslands og ríkisins. Núgildandi samn­ingur gildir til loka árs 2026 og er Framleiðnisjóði þar ætlaðir fjármunir út samningstímabilið. 
 
„Að mínum dómi er alveg ljóst að ríkið getur ekki einhliða tekið ákvörðun um að leggja niður Framleiðnisjóð, né heldur ákveðið að finna viðkomandi þróunarfjármunum nýjan farveg. Hér hlýtur að þurfa að eiga sér stað samtal beggja samningsaðila sem væntanlega fer fram í fyrirhugaðri endurskoðun rammasamnings síðar á þessu ári. Það hefur lítið farið fyrir umræðu um málið á þessum nótum og ég hvet forsvarsaðila bænda sem og aðra hagsmunaaðila að halda vöku sinni í þessum efnum. Það er mikilvægt að fjármögnun mikilvægs þróunarstarfs í greininni verði áfram tryggð. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...