Ráðlögð veiði væntanlega 800 þúsund tonn
Árlegri vetrarmælingu Hafrannsóknastofnunar á loðnu er lokið og samkvæmt henni er hrygningarstofn loðnu metinn 904 þúsund tonn en heildarstærð stofnsins 1.104 þúsund tonn.
Mælingarnar fóru fram dagana 19. janúar til 2. febrúar, með bergmálsaðferð á rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni, á göngu loðnu austur eftir norðurmiðum og suður með kantinum austan lands. Í leiðangrinum náðust tvær óháðar mælingar á stofninum.
Stofnstærðin 1.104 þúsund tonn
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir að þegar tekið er tillit til afla fram að leiðangrinum sé stofnstærðin 1.104 þúsund tonn. Í samanburði var hrygningarstofninn í haustleiðangri 2021 metinn 1.833 þúsund tonn, sem leiddi til að ráðlagt var að heildarafli var 904 þúsund tonn.
Ráðgjöf í samræmi við aflareglu
Samkvæmt lögum skal lokaráðgjöf vera í samræmi við aflareglu sem er byggð á tiltækum stofnmælingum. Þegar aflareglunni er beitt með 1.833 og 1.104 tonn sem upphafsstofn hermana skilaði það 800 þúsund tonna ráðgjöf á yfirstandandi vertíð sem er 100 þúsund tonnum minna en fyrri ráðgjöf.
Hafrannsóknastofnun lítur svo á að mikilvægt sé að gera grein fyrir þessum upplýsingum tafarlaust.
Hafís hindraði mælingar
Hafís norðvestan við Ísland kom í veg fyrir mælingar á svæði sem loðnu hefur mögulega verið að finna á og telur Hafrannsóknastofnun nauðsynlegt að kanna það svæði frekar áður en endanleg lokaráðgjöf verður gefin út.
Leiði sá leiðangur hins vegar ekki til hækkunar á mati mun lokaráðgjöf væntanlega verða um 800 þús. tonn.