Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bóndabaunir. Þroskinn ræðst af því hvernig haustið verður.
Bóndabaunir. Þroskinn ræðst af því hvernig haustið verður.
Mynd / Björgvin Þór Harðarson
Fréttir 23. júlí 2020

Rækta bóndabaunir, sinnep og nepju

Höfundur: Vilmundur Hansen

Um miðja síðustu öld var land á Rangárvöllum víða örfoka en í dag eru þar gróskumiklir akrar þar sem er ræktað bygg, hveiti, nepja, bóndabaunir og sinnep. Björgvin Þór Harðarson, iðnaðartæknifræðingur og bóndi í Laxárdal, leigir ásamt aðstandendum Grís og flesk um tæpa 300 hektara af landi af Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti.

Björgvin Þór Harðarson ræktar m.a. bygg og hveiti sem nýtist sem fóður í svínabúskapnum í Laxárdal.
Mynd / smh.

Á landinu rækta ábúendurnir í Laxárdal bygg á um 180 hekturum, hveiti á 40 og nepju á 35 hekturum og bóndabaunir og sinnep á um hektara hvora tegund.

„Fjölskyldan rekur svínabúið Grís og flesk og við erum með 160 gyltur og ræktum mest af okkar fóðri sjálf, bygg, hveiti og nepju. Einnig erum við með kjötvinnslu þar sem okkar vörur eru seldar undir vörumerkinu Korngrís.

Ég hef lengi verið að leita að tegund sem gæti komið í staðinn fyrir soja sem fóðurgjafa fyrir svín hér á landi. Ég var á ferðalagi um Finnland fyrir tveimur árum og þá hitti ég bændur sem nota ákveðið yrki af bóndabaunum í staðinn fyrir soja og mér datt í hug að prófa mig áfram með það,“ segir Björgvin.

Nepja við blómgun. Nepjan er þreskt heil og möluð fersk. Olían er síðan notuð beint í svínafóður.

Bóndabaunir í stað soja

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég rækta bóndabaunir en það hefur verið gerð tilraun með þær áður sem tókst ekki sérlega vel en ég er að vona að við getum fundið yrki sem gengur. Vöxturinn á baununum lítur ágætlega út en þær eru ekki neitt sérlega háar enn sem komið er og ég verð bara að bíða og sjá hvað gerist. Ég veit ekki hvað yrkið, Sampo, sem ég er með, þarf marga daga til að ná fullum þroska en ég er að vona að það sé svipað og hveiti sem þarf 1.500 til 1.600 daggráður.“

Ekki er þó víst að Björgvini verði að ósk sinni því hann segir að hveitið sé farið að skríða en að það vanti enn töluvert á að bóndabaunirnar fari að blómstra.

„Þroski baunanna ræðst því af því hvernig haustið verður.“

Sinnep fyrir hunangsflugur

„Þórður Freyr Sigurðsson, áhugamaður um humlur og hunangsframleiðslu, hafði samband við mig og lýsti áhuga sínum á að rækta sinnep fyrir hunangsflugur í tengslum við framleiðslu á hunangi. Við eru komnir með eitt bú á staðinn og humlurnar duglegar að framleiða hunang sem þær sækja í nepjuna og sinnepið og svo er von á fleiri búum fljótlega.“

Björgvin segir talsverðan mun vera á hunangi sem fæst af nepjunni og sinnepinu og að sinnepshunangið sé mun bragðsterkara.

„Hugmyndin er svo að fá fræ af sinnepsplöntunum og framleiða úr þeim alvöru sinnep.“

Sinnepið er m.a. ætlað sem æti fyrir hunangsflugur sem framleiða bragðsterkara hunang fyrir vikið.

Nepja í svínafóður

„Nepjan er þreskt heil og möluð fersk beint í svínafóður þannig að við fáum olíuna úr henni beint í fóðrið. Fyrir nokkrum árum létum við mæla fitusýruinnihald svínakjötsins frá okkur sem er alið á nepju og þær mælingar sýndu að Ómega 3 innihald kjötsins var meira í því kjöti en kjöti sem var alið á annars konar fóðri.“

Að sögn Björgvins hafa svipaða mælingar verið gerðar í Bandaríkjunum með svipuðum niðurstöðum og þar hafi menn haft uppi hugmyndir um að auka magn nepju í svínafóðri til að auka neyslu á Ómega 3 þar sem fólk borðar ekki mikið af fiski.

Örfoka land orðið akur

Landið sem Björgvin leigir af Landgræðslunni var örfoka melar fyrir 70 árum og sýnir árangurinn af ræktuninni hvað er hægt að gera með uppgræðslu.

„Ég er með skiptiræktun á landinu og rækta rauðsmára á hluta þess til að auðga jarðveginn af nitri. Landið sem ég leigi var örfoka melar um miðja síðustu öld og síðar tún sem notuð voru fyrir graskögglaverksmiðjuna í Gunnarsholti en nú eru þar gjöfulir og iðagrænir akrar sem byggja á starfi Landgræðslunnar,“ segir Björgvin að lokum.

Ætlunin er að rækta sinnepið fyrir hunangsflugur í tengslum við framleiðslu á hunangi. 

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...