Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Frá Landsmóti hestamanna á Hólum í Hjaltadal 2016.
Frá Landsmóti hestamanna á Hólum í Hjaltadal 2016.
Mynd / GHP
Fréttir 26. mars 2018

Ræktunarbú ársins í hrossarækt – breyttar reglur

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson
Á fundi fagráðs í hrossarækt sem haldinn var 22. febrúar var farið yfir reglur um ræktunarbú ársins í hrossarækt, sem er heiðursviðurkenning Bændasamtaka Íslands. Þessar reglur hafa verið að þróast á síðastliðnum árum og verður sú þróun kynnt hér, ásamt síðustu breytingum.
 
Reglur um þessa viðurkenningu hafa verið þannig að ræktunarbú eða ræktendur sem rækta fjögur hross og að lágmarki tvö með fyrstu verðlaun sem sýnd eru á árinu í fullnaðardóm koma til álita. Upphaflega var reiknuð út meðaleinkunn hrossanna eins og hún kemur fyrir, meðalaldur hrossanna og fjöldi; búunum raðað upp eftir þessum þáttum og það bú sem skorar hæst valið ræktunarbú ársins. (Þegar talað er um bú hérna er einnig átt við hópa af hrossum frá ákveðnum ræktendum.)
 
Reglurnar hafa verið að þróast á undanförnum árum en árið 2016 var ákveðið að leiðrétta allar einkunnir fyrir kyni og aldri líkt og gert er í kynbótamatinu. Þetta er gert til að gera einkunnir samanburðarhæfari áður en búum er raðað upp eftir meðaleinkunn. Svo er búunum raðað upp eftir leiðréttri meðaleinkunn og fjölda sýndra hrossa. 
 
Þá var í fyrra ákveðið að breyta því hvernig hross sem hljóta fyrstu verðlaun eða heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á búinu hafa áhrif á niðurstöðu búsins til að tryggja að þessi árangur hafi í öllum tilfellum jákvæð áhrif á röðun búanna (sjá í reglunum að neðan). Áður var það til dæmis þannig að hryssa sem hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi bætti einu fimm vetra hrossi með 8.00 í aðaleinkunn við hópinn, en það gat dregið meðaleinkunn búanna niður í sumum tilvikum. 
 
Öll hross með sama uppruna
 
Nú var ákveðið að skýra betur út hvaða hópar hrossa liggja valinu til grundvallar. Reglurnar hafa verið þannig undanfarin ár að bæði ræktunarbú eða aðilar (ræktendur) hafa getað komist í pottinn ef þeir sýna að lágmarki fjögur hross á árinu og tvö í fyrstu verðlaun eins og fyrr segir. Þannig hefur þetta verið í bland ræktunarbú þar sem öll hrossin eru frá sama uppruna, ræktunarbú þar sem uppruni hrossa er blandaður og einnig hópar hrossa frá einstökum ræktendum þar sem öll hrossin eru frá sama uppruna eða fleirum en einum uppruna. 
 
Nú var ákveðið að einfalda þetta val og einskorða valið í framtíðinni við ræktunarbú þar sem öll hrossin sem mynda hópinn sem liggur valinu til grundvallar þurfa að hafa sama uppruna (upprunanúmer). 
Tilgangur verðlaunanna er fyrst og fremst að verðlauna ræktunarárangur en þessi síðasta breyting er gerð til að tryggja að einnig sé verið að verðlauna uppeldið og utanumhaldið um hrossin; vegferðina frá hugmynd að pörun til sýningar. Einnig var þetta orðið fullflókin og mikil vinna við valið þegar bæði þurfti að horfa til uppruna og ræktenda og tryggja að ekkert hross gleymdist. Enda að verða flóknari mynd í seinni tíð hvernig staðið er að skráningu á uppruna og ræktendum.
 
Þessi nýja regla kemur ekki í veg fyrir að til dæmis ræktendur í þéttbýli geti verið verðlaunaðir, enda er áfram horft til þéttbýlisstaða sem uppruna og að sjálfsögðu til ræktunarnafna. Það þótti sanngjarnt og rétt að hafa tvær undantekningar á þessari meginreglu:
 
Í fyrsta lagi má tengja saman tvö upprunanúmer ef viðkomandi ræktendur hafa flust búferlum. Þetta er gert til þess að ræktendur þurfi ekki að byrja á núllpunkti ef þeir flytjast búferlum og kenna hross sín við annan uppruna á einhverjum tímapunkti. Einnig má tengja saman tvö upprunanúmer ef ræktendur rækta hross á tveimur jörðum þegar um sama (eða sameiginlegan) rekstur er að ræða. Til að Fagráð geti tekið tillit til þannig aðstæðna var ákveðið að þetta þurfi að tilkynna fyrir 1. maí ár hvert.
 
Forval hrossa til dóms
 
Forval hrossa til dóms er töluvert eins við þekkjum og nokkuð ljóst er að ræktunarverðlaunin eins og þau hafa verið auka heldur á það; þegar ræktandi er búinn að sýna ákveðinn hóp hrossa með góða meðaleinkunn bíður hann í sumum tilvikum með að sýna hross sem eru kannski alveg tilbúin til dóms ef það er hætta á að þau lækki meðaleinkunn hópsins. Þessi verðlaun eru náttúrulega fyrst og fremst hugsuð til að verðlauna ræktendur sem skila hrossum til dóms sem eru af miklum gæðum og til þess fallinn að auka á erfðaframfarir í stofninum. Þessi verðlaun þurfa í raun ekki að velta öðrum hrossum fyrir sér og því síður að draga úr því að þau séu sýnd. Af þessari ástæðu var ákveðið að við útreikning á meðaleinkunn búanna og samantekt á fjölda hrossa yrði í framtíðinni eingöngu horft til hrossa sem hlytu 8.00 í aðaleinkunn þar sem búið væri að leiðrétta fyrir aldri og kyni (leiðréttri aðaleinkunn). 
 
Þegar búið er að taka frá hross sem ná ekki 8.00 í leiðréttri aðaleinkunn, þá er búunum raða upp eftir meðaleinkunn og fjölda á sama hátt og gert er í dag. 
 
Fólk getur skoðað hvernig leiðréttingin er fyrir aldri og kyni í kynbótamatinu en það kemur fram í WorldFeng í flipanum Kynbótamat sem er á grunnsíðu hvers hests en þar er skjal sem heitir Alþjóðlegt kynbótamat. Þar má sjá til dæmis að fjögurra vetra hryssa með 7.80 og fjögurra vetra stóðhestur með 7.70 í aðaleinkunn eru með 8.00 í aðaleinkunn eftir leiðréttingu. Þannig að þetta útilokar ekki efnilegustu fjögurra vetra hrossin frá útreikningnum. Aftur á móti er sex vetra hryssa með 7.90 í aðaleinkunn með 7.95 eftir leiðréttingu og yrði þá ekki með í útreikningnum. 
 
Þetta er jákvæð breyting og til þess fallin að gera upp á milli búa á grundvelli bestu hrossanna en draga þau ekki niður fyrir að sýna hross af ýmsum gerðum sem verðmætt er að fá til dóms. 
 
Skráning á uppruna og ræktanda
 
Tekið skal fram að reglan er sú að skráning á uppruna og ræktanda (og nafni hestsins) er ekki breytt eftir að hrossið hefur hlotið dóm. Ræktendur hafa því góðan tíma fram að sýningu til að leiðrétta þessar skráningar. Það er gott að hafa það í huga og þessari reglu verður fylgt eftir í framtíðinni og ekki síður en gert hefur verið hingað til. 
 
Í þeim mikla fjölda hrossa sem eru í pottinum á hverju ári hefur tímasetning á endanlegri skráningu t.d. ræktanda vel getað hafa farið framhjá Fagráði. Það er afar óheppilegt þó að Fagráð sé ekki að véfengja breytingar á þessum skráningum enda þurfa þær í öllum tilvikum að koma beint frá skráðum ræktanda.
Þessar breytingar í heild sinni eru vonandi til bóta, til þess fallnar að skýra valið og fækka matskenndum atriðum. Reglurnar í heild sinni eru hér fyrir neðan.
 
Reglur um ræktunarbú ársins
 
Gögnin sem liggja til grundvallar eru dómar allra fulldæmdra hrossa á viðkomandi ári, sem eru fædd á Íslandi. Þá liggja og allar kynbótasýningar í heiminum undir. Aðeins hæsti dómur hvers grips telur með. Öll hross telja þar sem viðkomandi ræktandi er tilgreindur, þ.e. hross sem hér telja til stiga eru stundum ekki lengur í eigu viðkomandi ræktenda/bús. Réttar skráningar upplýsinga í WorldFeng eru hér lykilatriði, sá grunnur sem allt byggir á.
 
Fyrsta sían sem lögð er á gögnin er að a.m.k. fjögur hross frá búi hafi hlotið fullnaðardóm á árinu. Önnur sían að a.m.k. tvö þeirra hafi náð 8,00 í aðaleinkunn. 
 
Aðaleinkunnir hrossanna eru þá leiðréttar fyrir aldri og kyni líkt og gert er við útreikning á kynbótamatinu. Við útreikning á meðaleinkunn sýndra hrossa og samantekt á fjölda hrossa er aðeins horft til hrossa frá hverju búi sem ná 8.00 í aðaleinkunn (sem búið er að leiðrétta fyrir aldri og kyni). Þá er búum raðað upp eftir fjölda sýndra hrossa og leiðréttum aðaleinkunnum. Stig þessara þátta eru lögð saman fyrir hvert bú og raðað eftir skori.
 
Heiðurs- og fyrstuverðlauna gripir ræktenda, á sýningarárinu, telja til stiga samkvæmt eftirfarandi reglum:
 
  • Heiðursverðlaun hryssu á árinu gilda sem eitt einstaklingsdæmt hross og hækkar meðaleinkunn búsins um 0.05 stig.
  • Heiðursverðlaun stóðhests á árinu gilda sem fjögur einstaklingsdæmd hross og hækkar meðaleinkunn búsins um 0.05 stig.
  • 1. verðlaun stóðhests á árinu gilda sem tvö einstaklingsdæmd hross og hækkar meðaleinkunn búsins um 0.05 stig.
 
Fagráð tilnefnir á hverju ári 12 efstu búin til þessarar viðurkenningar og þegar það liggur fyrir hver þessi bú eru, er stigað og raðað að nýju innbyrðis (eftir meðaleinkunn og fjölda hrossa) svo endanleg röðun náist fram.
 
Tekið skal fram að sá hrossahópur sem kemur til álita ár hvert sem grundvöllur ræktunarbús ársins og þeirra búa sem tilnefnd eru verður að hafa sama uppruna/upprunanúmer. Skráðir ræktendur hrossanna verða að vera skráðir undir upprunanúmeri búsins (s.s. einstaklingur og rekstrarkt. hans / fjölskyldur og rekstrarkennitölur á sömu fastanúmerum). 
 
Undantekning:
Tengja má saman tvö upprunanúmer ef viðkomandi ræktendur hafa flust búferlum eða rækta hross á tveimur jörðum, enda er um sama (eða sameiginlegan) rekstur að ræða. Til að Fagráð geti tekið tillit til þannig aðstæðna þarf að tilkynna þetta fyrir 1. maí ár hvert.
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...