Rafbílarisinn Tesla tapar fyrir sandeðlum í Þýskalandi
Þýskur dómstóll úrskurðaði þann 17. desember síðastliðinn að Tesla þyrfti að lúta í lægra haldi fyrir pínulitlum sandeðlum (Lacerta agilis) og fengi ekki að ryðja skóga sem eru heimkynni þeirra fyrir nýja risaverksmiðju í nágrenni Berlínar.
Með úrskurði þýska dómstólsins virðast áform Tesla um byggingu á „Gigafactory“ verksmiðju sinni sem átti að taka í notkun í júlí 2021 runnin í sandinn. Að sögn Elan Musk, forstjóra Tesla, var hugmyndin að smíða þar 500.000 Tesla-bíla á ári.
Þær eru ekki stórar sandeðlurnar, en náðu samt að leggja risafyrirtæki Elon Musk að velli.
Greint var frá þessu eðlumáli í Bændablaðinu í byrjun desember á síðasta ári, en Tesla hefur ýmislegt reynt til að ryðja skóg fyrir verksmiðju sína. Þannig var sett í gang áætlun um að flytja sandeðlurnar í ný heimkynni, en eðlurnar voru þá þegar komnar í vetrardvala svo þau áform urðu að engu. Þá segir dómstóllinn að fyrirhuguð eyðing skógarins muni stefna eðlustofninum í voða og hafnar því umleitun Tesla.
Afstöðumynd af fyrirhugaðri lóð Tesla undir risaverksmiðju sína.